Lögreglan hættir rannsókn á banaslysi á Óshlíðinni 1973

Lögreglan á Vestfjörðum hefur hætt rannsókn á tildrögum atviks á Óshlíðarvegi 23. september 1973. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar sem birt er á Facebook.

„Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur lögreglan á Vestfjörðum haft til rannsóknar tildrög andláts farþega fólksbifreiðar, sem hafnaði utan vegar á Óshlíð 1973. Auk ökumanns bifreiðarinnar voru tveir farþegar í bifreiðinni, annar í framsæti við hlið ökumanns en hinn í aftursæti. Sá síðarnefndi lést. Atvikið var á sínum tíma rannsakað sem umferðarslys, eða svonefnd „mannskaðarannsókn“. Og málinu lokið af hálfu lögreglunnar á Ísafirði. Ríkissaksóknaraembættið fékk málið til meðferðar á þeim tíma og staðfesti þá ákvörðun.

Nánustu ættingjar hins látna settu sig í samband við lögregluna á Vestfjörðum í apríl 2021 og óskuðu eftir því að málið yrði tekið upp á ný og tildög atviksins rannsökuð þar sem rannsókn málsins á sínum tíma hafi verið ábótavant. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafnaði þeirri beiðni á þeim forsendum að engin ný gögn hefðu borist. Ættingjar kærðu þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögregluna á Vestfjörðum að taka til skoðunar ákveðna þætti, s.s. ljósmyndir af bílflakinu sem teknar voru á sínum tíma af blaðaljósmyndurum. Lögreglan á Vestfjörðum tók til rannsóknar þessa þætti sem og gerði kröfu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um að heimilað yrði að grafa upp líkamsleifar hins látna. Var það gert með vitund og samþykki ættingja. Líkamsleifarnar voru færðar til rannsóknar hjá réttarlækni sem hefur nú skilað lögreglu ítarlegri skýrslu um dánarorsök. Með hliðsjón af niðurstöðu réttarlæknis og sömuleiðis öðrum þeim þáttum sem rannsakaðir voru hefur lögreglustjórinn á Vestfjörðum ákveðið að hætta rannsókn málsins.

En niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekkert bendi til annars en að farþeginn hafi látist af afleiðingum umferðarslyss. Eins og ávallt er ákvörðun lögreglustjóra um lyktir mála kæranleg til ríkissaksóknara.Nánustu ættingjum hins látna hefur verið kynnt niðurstaðan.

Lögreglan mun ekki fjalla frekar um mál þetta í fjölmiðlum.“

DEILA