Leggja til að sveitarfélögin fái fiskeldisgjaldið

Fulltrúar sveitarfélaganna í tekjustofnanefnd Innviðaráðherra leggja til að Fiskeldissjóður verðið lagður niður og sveitarfélög fái tekjurnar til sín beint.

Segja þeir að flest bendi til þess „að fiskeldi muni aukast verulega á næstu árum og áratugum. Jafnframt kveða lög á um að gjaldtaka hækki í áföngum. Í skýrslu KPMG um fiskeldi kemur fram að m.v. ákveðnar forsendur um þróun fiskeldis megi reikna með 2-2,5 milljarða.kr. tekjum af gjaldtöku.“

Segir ennfremur í áliti fulltrúa sveitarfélaganna að fiskeldi hafi rennt nýjum stoðum undir atvinnulíf í byggðarlögum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum og að þau hafa þurft að leggja í umtalsverðar fjárfestingar í innviðum til að styðja við vaxandi atvinnugrein og fólksfjölgun.

Fulltrúar sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni voru Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð, • Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi á Akureyri og Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar.

Nefndin skilaði af sér skýrslu í síðustu viku til ráðherra og var skýrslan lögð fram á nýafstöðnu landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð
sveitarfélaga með það að markmiði að auka fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga.

DEILA