Laxeldi: erfðablöndun ekki staðfest

Kvíar í Dýrafirði. Mynd: Arctic Fish.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir segir í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi að samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun hafi erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum ekki verið staðfest hér á landi. Þá segir ráðherra að rafræn vöktun laxveiðiáa hafi verið sett upp á ýmsum stöðum og í dag nær kerfið yfir fjórar laxveiðiár, Laugardalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, Vesturdalsá í Vopnafirði og Krossá í Breiðafirði. Fáir fiskar úr fiskeldi hafa verið greindir frá því að kerfið var sett upp og fáir fiskar úr fiskeldi hafa veiðst í öðrum laxveiðiám.

Spurt var:  Telur ráðherra þörf á að bregðast frekar við með einhverjum hætti vegna vísbendinga um erfðablöndun milli eldislaxa sem sloppið hafa úr sjókvíum og villtra laxastofna?

Áformað er að koma upp samsvarandi vöktun í níu ám til viðbótar víða um land þar sem brýn þörf er á því, að mati ráðherra, í samræmi við varúðarregluna, að vakta og tryggja skýrt eftirlit til að fyrirbyggja erfðablöndun.

Þrjú tilvik um strok úr kvíum teljast vera stór en flestir laxar úr eldi hafa veiðst í nánasta nágrenni við eldissvæðin, sbr. Mjólká í Arnarfirði og hyggst ráðherra  á næstunni skipa starfshóp með fulltrúa frá Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Fiskistofu  ásamt einum fulltrúa frá skrifstofu matvæla. Hópurinn mun yfirfara þær reglur sem um málefnið gilda hérlendis og þá ferla og framkvæmd sem er til staðar en jafnframt afla gagna um reglur og framkvæmd þeirra í Noregi og Færeyjum. Loks mun hópurinn gera tillögur að endurskoðuðum reglum og verkferlum.

DEILA