Landsvirkjun: Ekki næg orka til allra góðra verkefna

Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra í ræðustól á haustfundinum.

“ Í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar þarf að segja nei við fjölmörgum góðum verkefnum. Orkan er einfaldlega ekki til.“ Þetta kom fram í máli Harðar Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar á haustfundi fyrirtækisins í morgun. Á fundinum, sem var yfirskriftina Breytt heimsmynd, breytt forgangsröðun, röktu sérfræðingar Landsvirkjunar stöðu orkumála hér á landi sem erlendis, hver fyrirsjáanleg eftirspurn framtíðar yrði og hvernig unnt væri að bregðast við til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga og stefnumörkun stjórnvalda.

Vegna þess mun fyrirtækið hvorki leggja áherslu á að fá nýja stórnotendur í málmiðnaði eða hrávöruvinnslu í viðskipti né heldur leggja áherslu á útflutning orku. Þess í stað verður megináhersla lögð á að anna eftirspurn eftir raforku til aukinnar almennrar notkunar í samfélaginu og til innlendra orkuskipta, til að styðja við aukna stafræna vegferð og nýsköpun og til að styðja við framþróun núverandi stórnotenda.

Í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kom fram að orkuöryggi væri mikilvægt og að vera ekki bara óháður jarðefnaeldsneyti heldur að vera ekki háður öðrum í orkumálum og vísaði hann þar til orkuskorts í Evrópu og hás verðs.

Ráðherra sagði að orkuöryggi fælist ekki eingöngu í aukinni orkuvinnslu heldur einnig fjölbreyttari kostum, á borð við vindorku. Nauðsynlegt væri að afla nýrrar, grænnar orku. „Þar treystum við ekki síst á Landsvirkjun,“ sagði ráðherra.

Fram kom að Landsvirkjun hefði á síðustu misserum endursamið við stærstu viðskiptavini Landsvirkjunar. Þeir greiða nú umtalsvert hærra verð fyrir orkuna en áður eða sambærilegt og almennt gildir í heildsölu.

DEILA