Landssamband veiðifélaga: áhyggjur af villum laxastofnum á Vestfjörðum

Langadalsá. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landssamband veiðifélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandi villtra laxastofna á Vestfjörðum og vestanverðu landinu í ljósi nýjustu frétta um eldislaxa í ám á svæðinu. Landssambandið gagnrýnir stjórnvöld og eftirlitsaðila harðlega fyrir seinagang og vanhæfni í málinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandinu.

Vísað er til frétta um niðurstöður úr DNA greiningu Hafrannsóknastofnunnar og Matís á löxum sem veiddir voru í þremur ám á Vestfjörðum í ágúst og september á þessu ári. Af 43 löxum sem voru rannsakaðir reyndust 28 vera eldislaxar eða rúmlega 65%.

villtir laxastofnar munu þurrkast út

„Varla þarf að fjölyrða um afleiðingar þessa en ljóst er að villtir laxastofnar á svæðinu munu þurrkast út á nokkrum árum. Það sama mun gerast í Ísafjarðardjúpi þegar laxar úr eldi þar munu sleppa og ganga í Laugardalsá, Langadalsá og fleiri ár á svæðinu. Nú þegar stafar öllum íslenskum laxastofnum hætta af sjókvíaeldinu en þrátt fyrir það berast tillögur úr hópi eldismanna um aukið eldi og stækkun eldissvæða. Slíkt mun ganga af öllum villtum laxastofnum dauðum á örfáum árum.“

Landssamband veiðifélaga hefur ítrekað bent á þessa yfirvofandi hættu og kallað eftir aðgerðum sem miða að því að eldi í opnum sjókvíum verði bannað hér á landi en fram að því að eftirlit með slíkri starfsemi verði stóraukið sem og rannsóknir á erfðablöndun og afleiðingum hennar.

Þá segir í tilkynningunni:

„Til viðbótar við þær stórkostlegu náttúruhamfarir sem í vændum eru ef eldislaxar af norskum uppruna fá að synda frjálsir upp í íslenskar ár munu afleiðingarnar á þúsundir einstaklinga og fjölskyldur um land allt sem reiða sig á tekjur af laxveiðum verða skelfilegar og óafturkræfar.

Landssamband veiðifélaga krefst þess að stjórnvöld girði sig í brók og geri trúverðugu áætlun um stöðvun á öllu eldi í opnum sjókvíum en fram að því stórefli eftirlit með strokum eldislaxa og rannsóknir á erfðablöndun. Fyrsta skrefið í slíkri áætlun væri að færa eftirlitshlutverk með sjókvíaeldi til stofnunnar sem kemur ekki að leyfisveitingum og tryggja Hafrannsóknarstofnun nægt fjármagn til rannsókna á erfðablöndun.

Ísland er síðasta vígi Atlantshafslaxins sem hefur verið útrýmt af fjölmörgum búsvæðum sínum við norðanvert Atlantshaf vegna aðgerða mannsins. Íslendingar hafa verið leiðandi í löggjöf sem miðar að verndun villtra laxastofna og margt hefur áunnist hér á undanförnum áratugum. Því er grátlegt að horfa upp á íslenska ráðamenn steinsofandi á verðinum þegar norskir auðmenn blóðmjólka íslenska náttúru til þess eins að elta skjótan gróða.“

DEILA