Landssamband smábátaeigenda: 48 daga strandveiðar undanbragðalaust

Smábátar í höfninni á Vatneyrinni á Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, LS, var samþykkt að mótmæla harðlega stöðvun strandveiða 21. júlí 2022. Skoraði félagið á stjórnvöld að tryggja með lögum að þessar veiðar verði undanbragðalaust leyfðar að lágmarki í
48 daga.

LS telur að grunnforsenda þess að markmið um 48 strandveiðidaga náist sé að skerpa verulega á reglum um eignarhald á strandveiðibátum frá því sem nú er, svo stöðva megi þá óheillavænlegu þróun sem hefur orðið í fjölgun á því að einstaka fyrirtæki geri út marga báta á strandveiði með gervieignaraðild.

LS beinir því til Fiskistofu að sinna betur lögboðnu eftirliti sínu varðandi eignarhald strandveiðibáta, sbr.: „einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða eitt fiskiskip. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið.“

LS ályktaði að þar til handfæraveiðar verða gefnar frjálsar skuli efla og styrkja strandveiðikerfið á eftirfarandi hátt:
a. Að heimild Fiskistofu um stöðvun strandveiða verði numin úr gildi.
b. Að tekin verði upp heimild til pörunar á umframafla, þannig að hægt verði að jafna það sem umfram í einum róðri í næsta róðri. Heimild þessi nái til 100 kg af óslægðum þorski.
c. Að sekt fyrir umframafla verði hækkuð það mikið að enginn geti hagnast á því að landa umframafla.
d. Að leyfilegt verði að virkja VS afla við strandveiðar.

DEILA