Lagarlíf 2022: metþátttaka, nærri 500 ráðstefnugestir

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður ráðstefnunnar. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Ráðstefnan Lagarlíf 2022 hófst í gær á Grand hótel í Reykjavík. Þetta var fimmta ráðstefnan sem haldin er undir og sú fjölmennasta. Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri ráðstefnunnar sagði við Bæjarins besta að 470 þátttakendur væri skráðir á ráðstefnuna nærri 100 fleiri en voru á ráðstefnunni í fyrra.

Það er fyrirtækið Strandbúnaður ehf sem stendur að ráðstefnuhaldinu í því skyni að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir,  þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða. Á ráðefnunni eru flutt erindi um sjókvíaeldi og landeldi, skelrækt og þörungarækt. Fjalla þau um framleiðslu, umhverfismál, markaðsþætti, flutninga og þróun greinanna svo nokkuð sé nefnt.

Flutt voru 24 erindi í gær auk ávarps Matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Kalkþörkungaverksmiðjunnar á Bíldudal er stjórnarformaður Strandbúnaðar og setti hann ráðstefnuna.

Lagði hann áherslu á þýðingu eldis í matvælaframleiðslu fyrir ört fjölgandi jarðarbúa. Sagði Halldór að það væri áskorun að fæða jarðarbúa á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Greinin ætti að fá að vaxa landsmönnum til heilla , í henni væri mikil verðmætasköpun og mörg vel launuð afleidd störf. Minnti hann sérstaklega á orkuþörfina sem fylgdi eldinu, sem væri mikil. Það væri því áríðandi að fara nýta möguleikana til virkjunar til orkuframleiðslu meðal annars til þess að losna við olíuna sem orkugjafa.

Svandís Svavarsdóttir. matvælaráðherra ávarpar ráðstefnuna í gær.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra sagði í ávarpi sínu að veiðar á villtum fiski myndu ekki vaxa og lagareldi hefði um árabil gefið vöxtinn í matvælaframleiðslunni sem þyrfti til að mæta vaxandi fjölda jarðarbúa. Hún sagði að lagareldi væri á fleygiferð og gæti skapað grunn að nýrri efnahagsstoð fyrir þjóðarbúið innan áratugs. Matvælaráðherra greindi frá vinnu að stefnumörkun fyrir greinina sem stjórnvöld væru að vinna að um þessar mundir og það sem gera þyrfti væri að skapa sem mesta velsæld með sem minnstu umhverfisspori. Skýr stefnumörkun myndi skila því að atvinnugreinin og stjórnvöld myndu ganga í takt.

Í dag verða meðal ræðumanna um sjóeldi á Íslandi forsvarsmenn eldisfyrirtækja á Vestfjörðum, Arctic Fish, Arnarlax, Hábrúnar og Háafells.

DEILA