Kollafjarðarheiði: hefði átt að vera lokuð

Annar bíll Dagrenningar á Hólmavík.

Sigurður Árni Vilhjálmsson, formaður björgunarsveitarinnar Dagrenning á Hólmavík segist vera þeirra skoðunar að það hefði átt að vera búið að loka veginum um Kollafjarðarheiði fyrir óveðrið um helgina. Sigurður Árni var á öðrum bíl sveitarinnar sem fann bíl sem festist á leið sinni um heiðina og tvennt, sem í bílnum var, voru þar föst í rúma tvo sólarhringa áður en þau fundust.

Sigurður Árni segir að það hefði átt að vera komið skilti upp við veginn um lokun hans. Hann segir þurfa að huga að þessu betur en verið hefur og það þurfi að búa svo um að ekki verði auðveldlega komist framhjá því skilti án þess að taka eftir því.

Björgunarsveitin Dagrenning hefur yfir tveimur bílum að ráða og var farið af stað á báðum þegar leitin að fólkinu hófst. „Við höfðum engan grun um hvar við ættum að leita en ákváðum að fara upp á Steingrímsfjarðarheiði og skiptum þar liði.“ Annar bíllinn fór af Steingrímsfjarðarheiðinni yfir á Þorskafjarðarheiði og niður í Þorskafjörð, þaðan vestur í Kollafjörð og svo upp á Kollafjarðarheiði. Hinn bíllinn fór vestur í Ísafjarðardjúp, í Ísafjörð og inn Múladal og upp á Kollafjarðarheiði og bílarnir mættust svo við týnda bílinn. Segja má að leitaráætlun Dagrenningarmanna hafi fullkomlega gengið upp.

Að sögn Sigurðar Árna var týndi bíllinn kominn langleiðina upp á Kollafjarðarheiðina upp úr Kollafirðinum. Hann segir hafa verið ófærð fyrir venjulega bíla en ekki svo slæmt fyrir breytta bíla.

Bíllinn var orðinn eldsneytislaus og rúða var brotin í honum, sem gerði vistina kuldalega, en ferðalangarnir hefðu gert það eina rétta, að halda kyrru fyrir í bílnum. „Það er miklu líklegra að finna bíllinn finnist en gangandi fólk.“

DEILA