Karfan: næstu leikir Vestra í 2. deildinni

Eftir frækinn sigur á Snæfelli síðustu helgi hjá körfuknattleiksdeild Vestra, liði sem þá var í öðru sæti í deildinn er komið að næstu leikjum.

Á laugardaginn 15. október  og sunnudaginn 16. október kemur, kl 14:00 báða daga, mætir Vestri, B-liði ÍR.

Í síðasta leik þá var Marko Jurica alger lykilleikmaður og skoraði 40 stig og áttu Snæfellingar erfitt með að stöðva kappann.  Ingimar Baldursson var svo næst stigahæstur með 18 stig. 

Leikurinn var einnig áhugaverður fyrir þær sakir að margir ungir leikmenn voru að spreyta sig í lykilhlutverkum.  Þar með talið tveir nýliðar. Jón Gunnar Shiransson, 16 ára og Magnús Baldvin Birgisson 17 ára, voru að spila sína fyrstu leiki fyrir félagið og náðu að skora sín fyrstu stig með meistaraflokki í leiknum.  Þá fékk Elmar Baldursson 17 ára,  tækifæri til að spreyta sig í stóru hlutverki en hann hafði í fyrra fengið smjörþefinn af því að spila með meistaraflokki í efstu deild og er einn af þessum ungu efnilegum strákum sem liðið er byggt upp á.

Nokkrir aðrir ungir leikmenn þeir, Krzystof Duda og bræðurnir James og Blessed Parilla komust vel frá sínum hlutverkum í leiknum en þeir hafa nú um tveggja til þriggja tímabila reynslu af keppni með meistaraflokki.  Skemmtilegt var að sjá svo heldri leikmenn liðsins þá Gunnlaug Gunnlaugson, Stíg Sophusson og Baldur Inga Jónasson taka þátt í uppbyggingunni, menn sem eru komnir af léttasta skeiði en geta hjálpað liðinu og þessum ungu strákum í þessari vegferð.

Myndin er af Magnúsi Baldvin og Jóni Gunnari, nýliðunum.

DEILA