Ísafjörður: vilja fækka í skólabílnum

Grunnskólinn á Ísafirði.

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs um að taka út 3 stoppistöðvar, þar sem þær eru innan 800 m radíus frá Grunnskólanum á Ísafirði.

Ástæðan er sú að skólabílinn sem fer úr Holtahverfinu fyrir kl.8:00 á morgnanna er orðinn fullur við Bónus. Hnífsdalsbíllinn fyllist líka á Seljalandsveginum og er alltaf að fjölga í barnahópnum sem bíður við stoppistöðina fyrir ofan Jónsgarð, en þaðan eru u.þ.b. 500 metrar að skólanum. Sama er upp á teningnum þegar kemur að akstri úr skólanum en þar fá færri sæti en vilja. Í minnisblaði sviðsstjórans til bæjarráðs segir að skólabílar í Skutulsfirði séu ítrekað troðfullir af börnum og eru þar fleiri börn en mega vera. „Þannig getur skapast töluverð hætta og börnum líður hreinlega illa að standa í bílnum án þess að geta hreyft sig.“

Vakin er athygli á að í Reykjavík er miðað við að veita skólaakstur fyrir börn sem búa í að minnsta kosti 1,5 km frá skóla. Kostnaður er nokkur við að mæta þörfinni með stærri bíl að fleirum bílum. Í minnisblaðinu segir að kostnaðurinn við skólabílinn í dag er um 2,4 milljónir á mánuði. Ef bæta ætti við skólabíl til að mæta þessum fjölda má áætla að það myndi kosta Ísafjarðarbæ tæpa milljón á mánuði eða um 9 milljónir á ári. Með því að fækka stoppistöðvum nálægt Grunnskólanum er vonast til að fækka farþegum.

Stöðvarnar þrjár sem teknar yrðu út eru í Króknum, fyrir ofan Menntaskólann á Ísafirði og fyrir ofan Jónsgarð. Við þessa breytingu er ólíklegra að börn sem búa í 400-600 m fjarlægð frá skólanum noti skólabílinn í og úr skóla, segir í minnisblaðinu. Þá segir að þessar breytingar hefðu ekki í för með sér neitt rask fyrir börn í 5.-10. bekk sem fara í íþróttir á Torfnesi í upphaf eða lok skóladags.

Bæjarráðið samþykkti ekki þessar tillögur á fundi sínum í gær en fól bæjarstjóra að vinna frekar að málinu og leggja aftur fyrir bæjarráð.

DEILA