Ísafjörður: rýma til fyrir nemendaíbúðum

Unnið er að því á vegum Ísafjarðarbæjar að rífa skúrabyggingar á Fjarðarstræti 20 og verður lóðin svo afhent húsnæðissamvinnufélagi um byggingu nemendaíbúða fyrir Háskólasetur Vestfjarða.

Ætlunin er að reisa 40 íbúðir á tveimur hæðum á lóðinni og hafa þær tilbúnar við upphaf skólahalds Háskólaseturs Vestfjarða haustið 2023. Grunnhönnun húsnæðisins liggur fyrir og er hún eftir Kjartan Árnason, arkitekt á Ísafirði.

Heildarstofnverð nemendagarðanna eru 616 milljónir króna. Heildarfermetrafjöldinn er 1.220. Ríkið leggur fram 18% af stofnkostnaði og Ísafjarðarbær 12%.

Bjarndís Friðriksdóttir tók þessar myndir af framkvæmdunum og hún minnir á að skúrarnir „geyma sannarlega sögur úr atvinnulífinu, í gegnum tíðina, þarna var ma, bílaverkstæði, smurstöð,smíðaverkstæði, lager ,aðstaða fyrir pípara og margt fleira.“

DEILA