Ísafjarðarbær: vilja kaupa safnageymslur í Skutulsfirði

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna möguleika til kaupa á safnageymslum í Skutulsfirði fyrir fyrir héraðsskjala- og ljósmyndasafn og listasafn sem myndi jafnframt nýtast bókasafni tímabundið meðan unnið er að endurbótum kjallara safnahúss.

Í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Ísafjarðarbæjar kemur fram að að alvarlegur skortur er á geymsluhúsnæði fyrir skjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn. Söfnin geyma muni á tveimur stöðum vegna skorts á geymsluhúsnæði. Er það Í kjallara og í risi Safnahúss og í geymsluhúsnæði í Hafnarhúsi á Ásgeirsbakka. Geymslurnar eru orðnar yfirfullar og er staðan þannig að Héraðsskjalasafnið hefur þurft að neita/fresta að taka við gögnum frá skilaskyldum aðilum vegna vöntunar á geymslum. Þá liggur fyrir að kjallari Safnahússins tekur ekki við frekari safngripum vegna plássleysis, auk þess sem safngeymsla í Hafnarhúsi var útbúin sem tímabundin lausn, fyrir nokkrum árum. Gögn eru þar geymd á vörubrettum og í kössum, en ekki í hillum, þar sem um tímabundna lausn var að ræða. Erfitt er því að ganga um gögnin og finna það sem leitað er að segir í minnisblaðinu.

Undanfarna mánuði hefur endurbótavinna staðið yfir í kjallara safnahúss vegna mikils leka og myglu síðustu ára.
Nú er utanhúss viðgerðum lokið, s.s. færsla drenlagna, tenging nýs brunns, hreinsun lagna og niðurfalla, og færsla jarðvegar frá húsveggjum. Innra rými kjallara fer því að verða tilbúið fyrir endurbætur og viðhald og nauðsynlegt er því að færa safngögn, sem þar eru geymd frá bókasafni, héraðsskjalasafni, ljósmyndasafni og listasafni, út úr húsinu
til tímabundinnar geymslu meðan unnið er að endurbótum.

Vænst er þess að endurbótum ljúki á næsta ári og hafa forstöðumenn safnahússins óskað eftir því að hluti safnkostsins fari í geymslu utan safnahúss, til að skapa frekara rými í kjallara fyrir aðra starfsemi hússins.

Samkvæmt samþykktri fjárfestingaráætlun er fyrirhugað að byggja nýja slökkvistöð í Skutulsfirði eftir nokkur ár og og segir í minnisblaðinu að þegar að því verður fengi héraðsskjalasafnið að vera undir sama þaki, með geymslur og starfsaðstöðu.

Í fjárhagsáætlun ársins eru 20 m.kr. merktar húsnæði: safngeymslur og safnahús.

DEILA