Ísafjarðarbær: íþróttaskóli í stað frístundastyrkja

Skíðin bætast við íþróttaskólann þegar líður á vetur.

Upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir að í stað þess að bjóða upp á frístundastyrki sé sveitarfélagið í samstarfi við HSV um að starfrækja íþróttaskóla fyrir börn í 1.-4. bekk þar sem þeim er boðið upp á grunnþjálfun, boltaskóla, sund og skíði í samfellu við skóladag nemenda. Gjaldið fyrir íþróttaskólann er 9.000 kr. á önn.

Þá er einnig boðið upp á sérstaka akstursstyrki fyrir fjölskyldur barna og unglinga í Dýrafirði, Súgandafirði og Önundarfirði sem þurfa að fara langan veg til að stunda viðurkennt íþrótta- eða tómstundastarf.

Í úttekt ASÍ sem birt var á dögunum kom fram að af 20 stærstu sveitarfélögum landsins væru aðeins tvo sem ekki veittu frístundastyrki. Ísafjarðarbær er annað þeirra. Ekki var í úttektinni borið saman milli sveitarfélaganna hver kostnaður væri við æfingar barna og unglinga.

Hæsti styrkurinn er í Kópavogi 56.000 kr á ári. Fram kemur í umfjöllun um styrkina á visir.is að æfingagjald fyrir fimmtán ára knattspyrnuiðkanda hjá Breiðablik er um 150 þúsund krónur fyrir árið. Sama er uppi á teningnum hjá fjölmörgum öðrum félögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem styrkirnir eru tiltölulega háir.

DEILA