Ísafjarðarbær: hafnarstjóri segir upp

Guðmundu M. Kristjánsson, hafnarstjóri.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri sagði upp störfum á föstudaginn miðað við næstkomandi áramót. Guðmundur sagði í samtali við Bæjarins besta að hann hefði ákveðið eftir rúmlega 20 ára starf að setjast í helgan stein og fara að njóta eftirlaunanna. „Það hafa of margir í kringum mig ekki náð því.” Hann bætti því við nú þegar hefði honum borist nokkur atvinnutilboð þótt hann hefi ekki verið að leita eftir vinnu.

Vinna er þegar hafin við útbúa auglýsingu eftir nýjum hafnarstjóra.  Bæjarráð ræddi málið á mánudaginn og ákvað að auglýsa stöðuna. „Það verður verðugt verkefni að finna eftirmann Mugga en hann hefur starfað hjá Ísafjarðarbæ í rúm  20 ár en ætlar nú að setjast í helgan stein. Hann er sem betur fer ekki að fara neitt og hefur tilkynnt okkur að við getum leitað til hans þegar á þarf að halda. Fyrir það erum við þakklát.“ sagði Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

DEILA