Ísafjarðarbær: alvarleg staða fjármála

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

„Útkomuspá Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2022 lýsir mjög alvarlegri stöðu fjármála og ljóst er að grípa þarf til mikilla aðgerða“ segir í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í vikunni.

Þar segir ennfremur að gjaldamegin þurfi að fara í erfiðar aðgerðir og tekjumegin sé ljóst að stærstu málaflokkarnir eru vanfjármagnaðir af hendi ríksins, s.s málaflokkur fatlaðs fólks og málaflokkur barna með fjölþættan vanda.

Í minnisblaði fjármálastjóra kemur fram að 172 m.kr. útgjöld falli á sveitarfélagið vegna málefna fatlaðra og 49 m.kr. vegna barnaverndar, samtals 221 m.kr.

Kostnaður við málefni fatlaðra hefur aukist umtalsvert á árinu og hefur sveitarfélaginu verið tilkynnt að Byggðasamlagið sé rekið með halla upp á 190 m.kr. „Ljóst er að ef tekjuáætlun jöfnunarsjóðs verði óbreytt þá muni innborganir vera mun lægri en gert var ráð fyrir. Aukinn kostnaður vegna málefna fatlaðra er því áætlaður um 172 m.kr. í útkomuspá“ segir í minnisblaðinu.

Kostnaður við barnavernd stefnir í að vera 91 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir en tekjur munu jafnframt verða 42 m.k. hærri en gert var ráð fyrir. Nettó aukning kostnaðar vegna barnaverndar sem bætt hefur verið í útkomuspá er því 49 m.kr.

Uppreikningur á áætlaðri lífeyrisskuldbindingu í árslok 2022 er 70,5 m.kr. hærri en áður var áætlað. Áætluð vísitöluhækkun launavísitölu var áætluð 6% en er nú 7,8%. Hlutur sveitarfélagsins í lífeyrisskuldbdingunni reyndist líka hærri en áætlað hafði verið eða 60,7% í stað 54%.

Áhrif aukinnar verðbólgu er talin verða að hækkun verðbótagjalda á árinu 2022 verði samanlagt 241 m.kr.

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta verður í árslok 2022 neikvæð um 442 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 37 m.kr. afgangi.

Bæjarráð brást við útkomuspánni með því að skera framkvæmdaáætlun ársins niður um 200 m.kr. og lækka lántökur um 170 m.kr. ásamt fleirum aðgerðum.

Aðgerðirnar voru staðfestar af bæjarstjórn á fundi hennar í gær.

DEILA