HG veitt heiðursslaufa Sigurvonar

Einar Valur Kristjánsson og Helena Hrund Jónsdóttir. mynd: Thelma Hjaltadóttir.

Hraðfrystihúsinu Gunnvöru var veitt heiðursslaufa krabbameinsfélagsins Sigurvonar í kaffisal fyrirtækisins í fyrradag. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG, tók við slaufunni af Helenu Hrund Jónsdóttur, formanni Sigurvonar. Með veitingunni vildu aðstandendur Sigurvonar þakka HG fyrir dyggilegan fjárstuðning til fjölda ára. Í leiðinni flutti Helena smá kynningu á félaginu fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Greindi hún meðal annars frá tilgangi félagsins sem hefur það að meginmarkmiði að styðja fjárhagslega við krabbameinsgreinda sem oft þurfa að sækja meðferð utan heimabyggðar með tilheyrandi kostnaði. Þá skýrði hún frá því að með því að ganga í félagið og greiða hógvært ársgjald eru félagsmenn einnig að styðja við þá sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð. Það væri þó mjög mikilvægt fyrir starfsemi félagsins að fá stuðning fyrirtækja eins og HG.

Einar Valur tók einnig til máls og ítrekaði hve mikilvægt það er að krabbameinsfélag sé til staðar þar sem krabbamein og afleiðingar þess hafa hreyft við okkur flestum og gerir svo sannarlega ekki boð á undan sér.

Í Sigurvon eru um 400 félagar og starfar á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Ár hvert velur Sigurvon einhvern í nærsamfélaginu sem hefur verið ötull baráttumaður gegn krabbameini til að veita bleiku slaufuna í þakkarskyni.

DEILA