Hafró: leggur til rækjuveiði í Arnarfirði og Djúpinu

Klakkur ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Birt hefur verið ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um veiðar á rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi fiskveiðiárið 2022/2023.

242 tonn í Arnarfirði

Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við varúðarsjónarmið, að afli rækju í Arnarfirði fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meira en 242 tonn og að afli rækju í Ísafjarðardjúpi verði ekki meiri en 523 tonn. 

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði hækkaði árið 2022 og var svipuð og á árunum 2013-2015. Mikið var af ýsu á svæðinu en árin 2020-2022 voru vísitölur ýsu þær hæstu frá árinu 2011. Í fyrra var ráðgjöfin 149 tonn. Fara verður aftur til ársins 2015/16 til þess að finna jafnhátt aflamark, en þann vetur var það 250 tonn. Aðal veiðisvæðið hefur minnkað og frá árinu 2009 hefur mestur afli verið veiddur á tiltölulega litlu svæði innst í Arnarfirði, þ.e. í Borgarfirði. Þessar breytingar eru aðallega vegna aukinnar fiskgengdar í firðinum.

523 tonn í Ísafjarðardjúpi

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi var svipuð og árin 2018-2020 og var yfir viðmiðunarmörkum. Vísitölur ýsu hafa verið háar frá árinu 2004.Enginn kvóti var gefinn út síðasta vetur. Ráðgjöfin fyrir fiskveiðiárið 2022/2023 hækkar vegna þess að vísitala stofnstærðar hefur hækkað.

Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hófust á fjórða áratug síðustu aldar. Á árunum 1978-2002 var rækjuafli 1000-3100 tonn (1. mynd). Engar rækjuveiðar voru heimilaðar í Ísafjarðardjúpi fiskveiðiárin 2003/2004 til 2010/2011 þar sem vísitala rækju var mjög lág. Eftir að veiðar hófust aftur haustið 2011 hefur aflinn verið 300-1100 tonn. Frá 2012-2017 hafa verið tvö aðalveiðisvæði, annað innst í Djúpinu en hitt utarlega. Frá árinu 2016 hefur mest verið veitt innarlega í Ísafjarðardjúpi.

DEILA