Fyrirmyndarfyrirtæki: Orkubúið uppfyllir skilyrðin

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Stakkanesi.

Orkubú Vestfjarða uppfyllir þau skilyrði sem Viðskiptablaðið/Keldan setja fyrir þvi að fyrirtæki geti verið á listanum yfir fyrirmyndarfyrirtæki sem birtur var í vikunni.

Daníel Örn Antonsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Orkubúsins segir að ársreikningaskrá Skattsins hafi ekki verið búin að skrá ársreikningi Orkubúsins fyrir 2021 þegar listinn var tekinn saman og það skýri málið. Í gær hafði hann samband við embættið og fékk staðfest að svo hefði verið og ástæðan væri mannleg mistök. Ársreikningurinn var loks aðgengilegur í gær.

Hagnaður varð af rekstri Orkubúsins bæði árin 2020 og 2021, var hann 386 m.kr. í fyrra og 321 m.kr. árið 2020. Tekjur OV voru 3.174 mkr. árið 2021, eigið fé um áramótin var 9.950 m.kr. og eiginfjárhlutfallið er 75%.

Skilyrðin fyrir því að vera á listanum eru að tekjurnar hafi verið meiri en 40 m.kr hvort ár, eigið fé sé meira en 80 m.kr. og eiginfjárhlutfallið meira en 20%. Orkubú Vestfjarða uppfyllir þau öll.

DEILA