Fjórðungssambandið vill aukin framlög til Vestfjarða

Frá Dynjandisheiði.

Fram kemur í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um frumvarp til fjárlaga fyrir 2023 að það vill auka fjárframlög ríkisins til ýmissa mála í fjórðungnum. Er bent á að samkvæmt fjármálaáætlun 2023-2027 muni tekjur ríkisins aukast um tæplega 140 milljarða króna ,en 40 milljörðum króna verði varið til lækkunar skatta og rekstarniðurstaða áætluð neikvæð er nemur 89 ma.

„Lækkun peningalegra skulda er mikilvægur þáttur í rekstri ríkissjóðs en benda verður á þá miklu viðhaldsskuld innviða sem m.a. Fjármálaráð benti á í umsögn um þingsályktun til fjármálaáætlunar 2023-2027, að nemi nú á hátt í 400 milljarða króna.“ segir í umsögn Fjórðungssambandsins.

Leggur Fjórðungssambandsið til að farið verði hægar að ná niður halla ríkissjóðs og lækka peningalega skuldir, en þess í stað að leggja áherslu á að lækka viðhaldsskuld innviða samfélagsins. Slíkt skapi aukinn stöðugleika fyrir samfélög og atvinnulíf auk meiri hagkvæmni í rekstri sem skilar sér í auknum ábata til ríkissjóðs til lengri tíma litið.

Vill Fjórðungssambandið auka framlög til sóknaráætlunar landshlutanna og byggðaáætlunar og minnir á að viðvarandi fólksfækkun hafi um 30 ára skeið verið á Vestfjörðum þótt þróunin hafi upp á síðkastið verið jákvæði. Þá þurfi meira fé til samgöngumála í fjórðungnum meðal annars til þess að mæta kostnaðarhækkunum á þegar samþykktum verkefnum. Eins vanti verulegt fé til vetrarþjónustu á vegum landsins og nú séu að koma nýir vegir í vetrarþjónustu á Vestfjörðum svo sem á Dynjandisheiði. Loks er getið um kröfur á sveitarfélögin um bætta innviði og aukna þjónustu sem fylgi uppbyggingu fiskeldisins á Vestfjörðum.

DEILA