Bolungavík: bærinn styrkir golfíþróttina um 3 m.kr. á ári

Gerður hefur verið samningur milli Bolungavíkurkaupstaðar og Golfklúbbs Bolungavíkur um uppbyggingu aðstöðu á Syðridalsvelli í Bolungarvík. Samningurinn er til 10 ára, frá 2023- 2032.

Sveitarfélagið skuldbindur sig til þess að greiða árlega kr. 1m.kr. í rektrarstyrk og 2m.kr. vegna byggingar golfskála. Samtals 3m.kr. á ári. Á móti skuldbindur Golfklúbbur Bolungavíkur, GBO, sig til að reisa og reka golfskála við Syðridalsvöll og jafnframt skuldbindur GBO sig til þess að bjóða almenningi og félagasamtökum í Bolungarvík aðgengi að samkomusal samkvæmt gjaldskrá. Á forsendum þessa samnings mun nýr 240 fermetra golfskáli rísa við Syðridalsvöll.

Bæjarráð Bolungavíkur hefur fjallað um samninginn og fagnaði fyrirhugaðri uppbyggingu á Syðridalsvelli og fól bæjarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins. Bæjarráðið lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að
efla barna- og unglingastarf samhliða bættum aðbúnaði með nýjum golfskála.

Golfklúbburinn: 50 – 60 m.kr. fjárfesting

Runólfur Pétursson, formaður Golklúbbs Bolungavikur sagði í samtali við Bæjarins besta að golfskálinn myndi líklega kosta um 30 m.kr. fullbúinn. Búið er að steypa grunninn og beðið er eftir einingunum erlendis frá. Stefnt er að því að skálinn verði komin upp fyrir veturinn en stríðið í Úkraínu hefur sett tímaáætlanir úr skorðum. Runólfur sagði að Fiskmarkaður Vestfjarða styrkir klúbbinn með því að gefa húsið og Jakbo Valgeir ehf gefur glugga, hurðir og fl.

Nýtt hús fyrir starfsemina er ekki eina fjárfesting félagsins heldur var verið að kaupa golfhermi sem kostar um 5 m.kr. og tækjakosturinn, einkum slátturvélar af ýmsum gerðum, hefur verið endurnýjaður og taldi Runólfur að það gæti numið um 20 mkr.

Golfklúbburinn annast íþróttasvæði bæjarins og slær knattspyrnuvöllinn og æfingasvæðið og er sú þjónusta hluti af samningnum við bæinn.

Að sögn Runólfs hefur það komið berlega í ljós að golfvöllurinn hefur töluvert aðdráttarafl fyrir ferðamenn og mun þessi aðstaða hafa sitt að segja í því að byggja upp ferðaþjónustuna í sveitarfélaginu.

DEILA