Bolafjall: búið að loka veginum

Aurskriða á veginum upp á Bolafjall.

Landhelgisgæslan hefur lokað veginum upp á Bolafjall af öryggisástæðum. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir það gert af öryggisástæðum, komið sé fram á haustið og færð getur spillst fyrirvaralaust. Vegurinn er brattur og engin öryggisvegrið og ekki talið rétt að hafa veginn opinn nú þegar komið fram á haustið og hálku eða snjókomu er von. Jón Páll segir bæjaryfirvöld sammála lokuninni.

Von á gjaldtöku á næsta ári

Í viðræðum milli bæjaryfirvalda, Landhelgisgæslunnar og Vegagerðarinnar hefur verið samstaða að sögn Jóns Páls að auka þurfi öryggi vegfarenda á veginum upp á fjallið með því að setja bundið slitlag á veginn og öryggisvegrið meðfram honum. Með þessum aðgerðum yrði væntanlega hægt að hafa útsýnispallinn opinn lengur á hverju ári en nú er. Litið er til þess að afla tekna fyrir þeim kostnaði með gjaldtöku af umferðinni þegar á næsta ári. Að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra er einkum verið að skoða þá útfærslu að innheimta gjald fyrir bílastæði. Yrði bæjarsjóður þá innheimtuaðili og stæði straum af framkvæmdunum.

Vænta má samkomulags um gjaldtökuna og framkvæmdirnar fljótlega.

DEILA