Aþingi: vilja fækka þingmönnum Norðvesturkjördæmis

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og fyrrv. sjávarútvegsráðherra.

Sextán þingmenn undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, hafa lagt fram lagafrumvarp um breytingu á kosningalögum. Vilja þingmennirnir færa fimm þingsæti til, tvö í Norðvesturkjördæmi og þrjú í Norðausturkjördæmi og flytja þau til Suðvesturkjördæmis. Eftir breytinguna verða 18 þingsæti í Suðvesturkjördæmi í stað 13 nú en aðeins 6 í Norðvesturkjördæmi og 7 í Norðausturkjördæmi í stað 8 og 10 þingsæta eins og nú er.

Þessu verði náð með því að hafa aðeins 6 kjördæmissæti í hverju kjördæmi landsins eða samtals 36 þingsæti sem verða ákvörðuð samkvæmt úrslitum í kjördæminu. Svo verði 27 þingsæti jöfnunarsæti sem verði úthlutað samkvæmt fjölda atkvæða. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að skipting jöfnunarsætanna milli kjördæma yrði þannig að ekkert kæmi í hlut Norðvesturkjördæmis, 1 í Norðausturkjördæmi, 4 í Suðurkjördæmi, 5 í Reykjavík norður og einnig 5 í Reykjavík suður og loks kæmu 12 þingsæti í hlut Suðvesturkjördæmis. Samanlagður þingsætafjöldi hvers kjördæmis yrði þá 6 í Norðvesturkjördæmi, 7 í Norðausturkjördæmi, 10 í Suðurkjördæmi, 11 í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna og 18 í Suðvesturkjördæmi.

Breytingin frá núverandi kostningalögum yrði þá sú að í þremur kjördæmum yrði þingsætafjöldinn óbreyttur, í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðurkjördæmi. Í hinum þremur yrði sú breyting að fækka mun um 2 þingsæti í Norðvesturkjördæmi og 3 þingsæti í Norðausturkjördæmi en fjölga um 5 þingsæti í Suðvesturkjördæmi.

Tilgangur þingmálsins að gera vægi atkvæða milli kjördæma eins jafnt og stjórnarskráin heimilar eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. Flutningsmenn segja að jafnræði fólks til að hafa pólitísk áhrif með atkvæðisrétti sínum sé meðal grundvallaratriða lýðræðisins og telja þeir að svonefnt misvægi atkvæða sé óviðunandi og þurfi í raun að gera meiri breytingu en lagt er til. En til þess að ná því fram þyrfti að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um það atriði og því sé þessi leið farin.

Hægt sé að ná fram breytingum á kosningalögunum með einföldum meirihluta á Alþingi með því að breyta lagaákvæði um fjölda þingsæta í hverju kjördæmi og fara framhjá ákvæðum kosningalaganna sem krefjast 2/3 hluta atkvæða fyrir breytingum á ákvæðum um kjördæmamörk og um breytingum á úthlutun þingsæta.

Frumvarpið flytja 5 þingmenn Viðreisnar, 6 þingmenn Pírata, fjórir þingmenn Samfylkingarinnar og einn þingmaður Flokks fólksins. Sex flutningamanna eru þingmenn Suðvesturkjördæmis, 9 eru þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna og 1 er þingmaður í Suðurkjördæmi. Enginn flutningsmaður er úr Norðvestur- eða Norðausturkjördæmum.

DEILA