Alþingi: vilja hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum

Bergþór Ólason, alþm. Miðflokksins tekur stökk upp á við í skoðanakönnun Gallup.

Fjórir alþingismenn hafa flutt á Alþingi tillögu til þingsályktunar um hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Lagt er til að fela ríkisstjórninni að tryggja Vestfirðingum sama afhendingaröryggi rafmagns og öðrum landsmönnum með því að koma á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Í greinargerð með tillögunni segir að með hringtengingu er átt við að orka geti borist úr tveimur áttum en ekki einni. Verði bilun á annarri línunni berst rafmagn áfram með hinni.

Tillagan er flutt í þriðja sinn og endurflutt óbreytt frá síðasta þingvetri. Þá voru flutningsmenn tveir, Bergþór Ólason, sem er fyrsti flutningsmaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Nú hafa bæst við tveir aðrir alþingismenn, þeir Eyjólfur Ármannsson og Haraldur Benediktsson. Þrír af fjórum flutningsmönnum eru þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Fram kemur í greinargerð sem fylgir með tillögunni að  samkvæmt úttekt Vestfjarðastofu er helsti vandi Vestfirðinga í raforkumálum afhendingaröryggi orkunnar en Vestfirðir eru háðir innflutningi á orku af meginflutningskerfi landsins. Segir í greinargerðinni að „Tíðar rafmagnstruflanir eru dýrar og standa bæði vexti og rekstri atvinnulífs fyrir þrifum. Fyrirtæki á Vestfjörðum þurfa reglulega að kljást við spennuflökt og útslátt. Spennuflökt veldur umtalsverðu tjóni á viðkvæmum tölvustýrðum vélum og flestum tölvubúnaði. Slíkt kostar fyrirtæki á svæðinu umtalsverðar upphæðir á hverju ári en þegar rafmagn slær út felst alltaf tjón í því fyrir fyrirtækin. „

Vestfjarðastofa hefur staðfest að aukin eftirspurn verður eftir orku á Vestfjörðum næstu árin vegna fjölbreyttrar starfsemi, svo sem kalkþörungavinnslu, fiskeldis og ferðaþjónustu, og vegna fjölgunar íbúa samhliða auknum umsvifum í atvinnulífi. Slík uppbygging er háð því að afhendingaröryggi og aðgangur að aukinni orku sé fyrir hendi.

DEILA