Alþingi: vilja endurskoðun á ákvæðum um gjaldtöku af fiskeldi

Átta alþingismenn undir forystu Höllu Signýjar Kristjánsdóttur (B) hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps sem á að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi.

Markmið starfshópsins verði:
a. að taka saman yfirlit yfir heildargjaldtöku af fiskeldi og undir hverju tekjunum er ætlað að standa, sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga,
b. að tryggja sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi,
c. að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.


Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi skal vera lokið og skýrsla kynnt Alþingi eigi síðar en í lok árs 2023.

Tillagan hefur verið lögð fram tvisvar áður án þess að ná fram að ganga og er endurflutt með mávægilegum breytingum.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að þær umsagnir sem borist hafa um málið hafi almennt verið jákvæðar og tekið hefur verið undir mikilvægi tillögunnar. Fyrir sveitarfélögin skiptir meginmáli að þeim sé tryggður eðlilegur hluti af
opinberri gjaldtöku af greininni til að geta staðið undir þeirri innviðauppbyggingu sem nauðsynleg er vegna þessarar nýju og ört vaxandi atvinnugreinar hér á Íslandi. Sveitarfélög eru sjálfstæðar stjórnsýslueiningar sem þurfa sterka og fyrirsjáanlega tekjustofna til að geta staðið undir verkefnum sínum.

Þá segir einnig:

„Árið 2004 tóku stjórnvöld ákvörðun um að sjókvíaeldi yrði einungis leyft á hluta Austfjarða og Vestfjarða og í Eyjafirði. Sú ákvörðun byggðist á því að vernda þyrfti ár þar sem stundaðar væru veiðar á villtum laxastofni landsins. Frá því að sú ákvörðun var tekin hefur verið mikil uppbygging í sveitarfélögum á Vestfjörðum og Austfjörðum sem hýsa þessa
starfsemi. Sveitarfélögin hafa unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla.“

Fimm flutningsmanna eru frá Framsóknarflokknum og einn frá hverjum þessara flokka: Samfylkingu, Viðreisn og Flokki fólksins. Þrír flutningsmanna eru þingmenn Norðvesturkjördæmis.

DEILA