Vg: vilja auka byggðafestu kvótans

Bjarni Jónsson (V)

Bjarni Jónsson, alþm. og fjórir aðrir þingmenn Vinstri grænna hafa flutt tillögu til þingsályktunar á Alþingi þar sem matvælaráðherra er falið „að efla félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með aukinni hlutdeild í heildarafla, endurskoðun á skiptingu aflamagns innan kerfisins og hlutverki hverrar aðgerðar innan þess.“

Mælt var fyrir tillögunni í síðustu viku og i upphafi ræðu sinnar skýrði Bjarni Jónsson tilganginn með breytingunum sem lagar eru til með því að styrkja þyrfti stöðu sjávarbyggðanna og það væri gert með því að efla krókaveiðar:

„Við þurfum að styrkja stöðu sjávarbyggðanna, tækifæri fólks til að leggja fyrir sig vistvænar krókaveiðar á grunnslóð í atvinnuskyni. Nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sjávarauðlindina. Að sú leið sé öllum opin, ekki síst í þágu smærri byggðanna sem hafa á undanförnum árum verið rúnar aflaheimildum sínum og lífsbjörg kynslóða, á sífellt færri hendur á færri stöðum. Kvótakerfið er án byggðafestu, þar sem menn hafa komist upp með að höndla með veiðiheimildir sem eign þeirra væri og án tillits til hagsmuna og réttinda einstakra byggðarlaga og samfélags fólks sem hefur í kynslóðir byggt afkomu sína á því að sækja sjóinn og vinna úr og nýta það sem hafið gefur.“

Flutningsmenn vilja auka hluteild svonefnds félagslega hluta kvótakerfisins úr 5,3% í 8,3% af kvótasettu aflamarki hvers árs og er þar átt við veiðiheimildir til strandveiða, línuívilnunar, byggðakvóta og bóta til skel- og rækjuveiðihafa. Segja þeir að það muni auka svo um munar „fyrirsjáanleika í greininni, minnkar sveiflur vegna kvótaskerðingar og styrkir stöðu félagslegra veiða innan heildarkerfisins.“

Saga strandveiða er rakin og þýðing þeirra og „Strandveiðar skipta nú sköpum fyrir fjölda fjölskyldna vítt og breitt um landið og stuðla að byggðafestu.“

Það er því álit þeirra sem standa að þessari tillögu til þingsályktunar að mikilvægt sé að efla enn frekar strandveiðar með traustum aflaheimildum og réttlátri skiptingu aflamagns á milli aðgerða félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, svo að þær fái best þjónað því hlutverki sínu að efla nýliðun og að samfélagsleg og hagræn áhrif veiðanna á dreifðar sjávarbyggðir landsins séu treyst.

DEILA