Vesturbyggð: strandsvæðaskipulag má ekki hefta atvinnuupbyggingu

Örlygshöfn.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur gengið frá umsögn sinni um tillögu að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði sem unnið er að á vegum Skipulagsstofnunar og Svæðisráðs. Í umsögninni segir að undirbúningur að skipulaginu hafi verið gagnlegt og árangursríkt ferli, sem hefur skapað farveg fyrir löngu tímabært samtal um skipulag þeirra gæða sem
strandbyggðir og samfélög í sjávarbyggðum hafa við sínar bæjardyr en bæjarstjórnin telur þó rétt að ítreka að umgjörð og utanumhald skipulagsins megi ekki verða heftandi fyrir atvinnuuppbyggingu og sjálfbærni samfélaganna til framtíðar.

Því er talið nauðsynlegt að skilgreina betur hvernig stjórnsýslu varðandi afgreiðslu þess og framtíðarnotkun verður háttað. Bent er á að gildistími skipulagsins er ekki skilgreindur og að ekki eru sett skilyrði um endurskoðun skipulagsins. Úr því þurfi að bæta því áhyggjur eru uppi um að erfitt verði að gera breytingar á skipulaginu í samræmi við vilja sveitarfélaganna.

Settar eru fram nokkrar tölusettar athugasemdir við tillöguna sem fyrir liggur frá Svæðisráði. M.a. þessar:

Stærri svæði undir staðbundna nýtingu

  • Bent er á að svæði sem skilgreind eru á uppdrætti undir staðbundna nýtingu, SN, byggja á útgefnum leyfum og að við útgáfu fyrstu eldisleyfanna voru svæðin mun smærri en nýrri leyfi sem gefin hafa verið út. Endurskoða þurfi reitina og gera ráð fyrir stærri reitum til staðbundinnar nýtingar og samræma stærðir, m.a. til að hefta ekki hreyfanleika kvía innan reita. Endurskoðun reitanna er talin mikilvæg svo rekstraraðilum sé gefið svigrúm til að vaxa og eflast og rekstraróvissa verði lágmörkuð.

Varanleg sjónræn áhrif

  • Í strandsvæðaskipulaginu er tíðrætt um að við ákvörðun um leyfisveitingar skuli tekin afstaða til sjónrænna áhrifa af starfseminni segir í umsögninni. Vesturbyggð bendir á að í þararækt, kræklingarækt, fiskeldi og nýtingu annarra auðlinda er iðulega um einhver sjónræn áhrif að ræða, þau eru þó alla jafna ekki varanleg og afturkræf. Mat á sjónrænum áhrifum ætti því jafnframt að líta til þess hvort um varanleg sjónræn áhrif er að ræða eða ekki.

Fiskeldið sé ekki víkjandi

  • Þar sem saman liggi reitir eða svæði annars vegar staðbundin nýting, SN, þar sem er atvinnustarfsemi og umhverfi og náttúra, UN, sé skilgreining víkjandi reita óljós og ber að skýra betur svo ljóst sé hvað víkjandi reitur beri með sér fyrir þá starfsemi sem fyrir er, s.s. SN reitir við Ketildali í Arnarfirði sem liggja að UN5. Merkir það að gert sé ráð fyrir að fiskeldi sé víkjandi a reitnum og að endurnýjun leyfa til fiskeldis samræmist ekki nýtingu svæðisins að ekki verði veitt heimild til fiskeldis á reitnum eftir að núverandi leyfi rennur út? Ef svo er þarfnast skilgreining reitsins endurskoðunar þar sem leyfi hafi verið veitt til atvinnustarfsemi og er þá einkum átt við fiskeldi og vill Vesturbyggð að hagsmunir sveitarfélaganna séu hafðir til hliðsjónar.

DEILA