Vesturbyggð: ný leikskóladeild

Leikskólinn Araklettur, Patreksfirði.

Fyrir bæjarstjórn Vesturbyggðar liggur tillaga bæjarráðs um að byggja nýja leikskóladeild við leikskólann Araklett. Lagt er til að keyptar verði ævintýraborgir, sem er sérútbúið húsnæði fyrir leikskóla með góðan aðbúnað fyrir börn og starfsfólk. Um er að ræða 144 fermetra húsnæði sem yrði staðsett við norðurhlið leikskólalóðar. Áætlað er að húsnæðið verði tilbúið til notkunar í febrúar 2023. Heildarkostnaður, auk húsbúnaðar og viðbótar stöðugilda við leikskólann, er áætlaður um 80 milljónir króna. Byggingin rúmar um 20 börn ætti því að uppfylla þá áætlaða fjölgun leikskólabarna á næstu árum.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri segir að stefnan hjá Vesturbyggð sé og hafi verið að taka við börnum í leikskólann við 14 mánaða aldur.

Í viðauka við fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir 35 m.kr. kostnaði vegna málsins sem er mætt með hækkun tekna vegna útsvars um sömu fjárhæð. Horfur eru á því að útsvarstekjur ársins verði töluvert yfir áætlun. Fram kemur að raun útsvarstekjur fyrir tímabilið janúar – ágúst 2022 eru um 64 milljónum yfir áætlun.

DEILA