Vestri: jafntefli gegn Selfossi

Boltinn á leið í netið eftir skalla Montipo í 91. mínútu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra í knattspyrnu lék á laugardaginn við Selfoss á Olísvellinum á Ísafirði í síðasta heimaleik keppnistímabilsins. Leikið var í fögru haustveðri við góðar aðstæður. Leikurin bar þess merki að hvorugt liðað hafði í raun ekki að neinu að keppa, bæði liðin örugg með sæti sitt í deildinni en áttu ekki möguleika á að vinna sér sæti í Bestu deildinni. Engu að síður mátti sjá ágætt spil á köflum og einkum voru það Vestramenn sem höfðu frumkvæði í leiknum. Þó fór svo að Selfyssingar tóku forystuna undir lok fyrri hálfleiks nokkuð óvænt úr einni af fáu sóknum sínum. Við það kom fjörkippur í sóknarleik Vestra og Nicolaj Madsen jafnaði að bragði og jafnt var í hálfleik.

Í seinni hálfleik jukust yfirburðir Vestra og þeir áttu bæði sláar- og stangarskot úr opnum færum sem ekki nýttust og þegar síst var von á skoruðu Selfyssingar aftur eftir mistök í varnarleiknum hjá Vestra. Þung sókn heimamanna hélt áfram og bar árangur á elleftu stundu þegar Martin Montipo skoraði í uppbótartíma. Niðurstaðan varð 2:2 jafntefli.

Þegar ein umferð er eftir af Lengjudeildinni er Vestri í 8. sæti af 12 með 28 stig, 7 sigra, 7 jafntefli og 7 töp.

Síðasti leikurinn verður næsta laugardag í Kórnum þar sem leikið verður við lið HK, en Kópavogspiltarnir hafa unnið sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar.

DEILA