Vestfirðir: helmingur íbúafjölgunarinnar er í Vesturbyggð

Bíldudalur

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum hefur fjölgað um 71 á 9 mánaða tímabili frá 1. desember 2021 til 1. september 2022. Réttur helmingur fjölgunarinnar er í Vesturbyggð. Þar voru íbúar 1.166 um síðustu mánaðamót og hafði fjölgað um 35 frá 1. desember. Fjölgunin er 3,1% sem er þrefalt meira en íbúafjölgunin á Vestfjörðum. Íbúum á Tálknafirði fjölgaði einnig langt yfir fjölguninni á Vestfjörðum. Þar bættust 10 íbúar við sem er 3,9%. Mikil hlutfallsleg fjölgun varð bæði í Súðavík og í Árneshreppi. Í Súðavík fjölgaði um 24 íbúa eða 11,3% og fjölgunin í Árneshreppi var um 5 manns eða 12,2%.

Á landsvísu fjölgaði landsmönnum um 7.275 eða um 2,3% á síðustu mánuðum.

Þegar fjölgunin er greind eftir svæðum á Vestfjörðum kemur í ljós að hún varð langmest á sunnanverðum Vestfjörðum. þar fjögaði um 45 íbúa. Á norðanverðum Vestfjörðum fjölgaði um 21 íbúa, í Strandasýslu fjölgaði um 2 íbúa og fjölgun varð um 3 í Reykhólahreppi.

Fækkun á Ströndum og Reykhólasveit

Frá 1. desember 2019 til 1. september 2022 hefur mest fjölgun orðið í Vesturbyggð. Þar fjölgaði um 146 íbúa eða 14,3%. Þá varð veruleg fjölgun í Súðavík á þessu tímabili. Við bættust 24 íbúar eða 13,4%. Óveruleg breyting varð bæði í Bolungavík og í Ísafjarðarbæ. Hins vegar fækkaði verulega í Strandabyggð og í Reykhólahreppi. Í Strandabyggð er fækkunin 30 manns eða um 6,6% á þessum tæpu þremur árum og í Reykhólahreppi fækkaði um 25 manns eða 9,5%.

Íbúafjöldi á Vestfjörðum. Fremst er 1.12.2019, svo 1.12.2020, 1.12.2021 og loks 1.9.2022.

DEILA