Verkvest: uppsögn áhafnar Stefnis í athugun

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er að láta athuga uppsögn áhafnar Stefnis ÍS. Að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélagsins er verið að skoða hvort lög um hópuppsagnir eigi við í þessu tilviki en þar er kveðið á um hvernig standa eigi að uppsögnum og er miðað við fjölda þeirra sem sagt er upp og heildarfjölda starfsmanna hjá fyrirtækinu.

Finnbogi segir það ánægjulegt að þeim sem sagt var upp bjóðist önnur störf hjá fyrirtækinu, en finnur að því hvernig staðið var að uppsögninni „það skýtur skökku við að afhenda uppsagnarbréf að nóttu án aðdraganda eða samráðs við áhöfnina eða stéttarfélagið.“ Áhöfnin hafi þá um nóttina verið í mikilli óvissu um hvað tæki við.

Þrettán manns var sagt upp samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá HG og segir að útgerðin muni leitast við að útvega þeim sem missa vinnuna störf á öðrum skipum félagsins eins og kostur er.

DEILA