Uppskrift vikunnar – Nautabuff í sveppasósu

Ég ólst nú mikið upp við nautabuff og ég kalla þessi nautabuff í sparifötum. Þó mér finnist gömlu góðu aldrei svíkja þá er gaman að uppfæra aðeins og breyta til og þá finnst mér þessi uppskrift algjör snilld. Vona að þið verðið sammála.

Hráefni fyrir nautabuff:

1/2 laukur skorinn smátt

1/2 dl panko brauðrasp

500 gr nautahakk

1 hvítlauksgeiri, rifinn niður

1 egg

2 msk tómatsósa

1 teningur nautakraftur, mulinn niður

1/2 tsk Worcestershire sósa

3 tsk dijon sinnep

Sósan:

1 msk ólívuolía

2 hvítlauksgeirar, rifnir niður

1/2 laukur, saxaður smátt

150g sveppir skornir niður

2 msk smjör

3 msk hveiti

1/2 líter nautasoð

250 ml vatn

2 tsk dijon sinnep

2 tsk Worcestershire sósa

Salt og pipar

Aðferð:

Hellið brauðrasp í stóra skál ásamt smátt söxuðum lauk. Blandið þessu saman og leyfið þessu að standa í 2 mín. Setjið þá afganginn af hráefnunum fyrir nautabuffin saman við og blandið þessu mjög vel saman með höndunum. Mótið úr þessu 5-6 buff og leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu og steikið buffin í um 1 mín á hvorri hlið, rétt svo þau brúnist á báðum hliðum en eru ennþá ekki elduð í gegn. Leggið þau til hliðar á disk.

Bætið smá olíu á pönnuna (ef þarf) og steikið lauk og hvítlauk í um 2 mín eða þar til laukurinn fer að mýkjast. Bætið þá sveppum á pönnuna og steikið áfram í um 2-3 mín. Lækkið hitann örlítið á pönnunni og bætið smjöri saman við. Þegar smjörið hefur bráðnað fer hveiti út á pönnuna og hrært stanslaust í þessu á meðan. Næst fer nautasoðið saman við, í smá skömmtum, og hræra áfram stanslaust í þessu þar til sósan er kekkjalaus. Bætið þá afgangnum af hráefnunum fyrir sósuna saman við.

Færið núna buffin á pönnuna, saman við sósuna og leyfið þeim að hitna í sósunni í 5-7 mín eða þar til sósan fer að þykkna. Ef sósan verður of þykk má bæta smá vatni eða rjóma út í hana. Smakkið sósuna til með salti og pipar. Gott er að bera buffin fram með kartöflustöppu og toppa hana með saxaðri steinselju.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA