Tindátarnir í Dýrafirði

Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, vinnur nú að nýju barna- og fjölskyldu leikriti. Einsog oft áður sækir leikhúsið í eign sagnaarf því verkið er byggt á ljóðabók hins vestfirska Steins Steinarrs. Leikurinn ber og nafn ljóðabókarinnar nefnilega, Tindátarnir. Það er óhætt að segja að verkið hafi verið einstaklega framsýnt því það kom út í miðri seinni heimstyrjöld, árið 1943, og spáði fyrir um endalok stríðsins. Tveimur árum síðar lauk svo loks stríðinu.

Í upphafi þessa árs fékk Kómedíuleikhúsið styrk frá Sviðslistasjóði til uppsettningar á Tindátunum. Um leið hófst undirbúningur sem hefur staðið yfir með blússandi krafti síðan og nú hyllir í frumsýningu. Tindátarnir verða frumsýndir í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal Dýrafirði föstudaginn 30. september kl.10.00. Frumsýningargestir verða ekki af verri endanum nefnilega æska Dýrafjarðar, nemendur í leik- og grunnskóla Þingeyrar. Í framhaldinu verður leikurinn sýndur í leik- og grunnskólum Ísafjarðabæjar. Sýningarnar eru liður í farsælu samstarfi Kómedíuleikhússins við Ísafjarðarbæ þar sem æsku bæjarins er árlega boðið á atvinnuleiksýningu.

Tindátarnir marserra svo áfram í leikferð um Vestfirði og loks um landið allt. Nú þegar hafa verið bókaðar fjölda sýninga og það er næsta víst að þetta verður mikið leikævintýr.

Fjöldi listamanna kemur að uppfærslunni enda þarf margt til að túlka stríð á leiksviði. Leikurinn er settur upp sem skuggabrúðuleikhús sem er um margt lítt notað leikhúsform hér á landi. Leikstjóri er Þór Túlinius, leikari er Elfar Logi Hannesson og brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Eru þau einnig höfundar leiksins. Soffía Björg Óðinsdóttir semur tónlist og hljóðmynd, Þ. Sunnefa Elfarsdóttir annast búningahönnun, Kristján Gunnarsson leikmyndahönnun og ljósameistari er Sigurvald Ívar Helgason.

Tindátarnir er 51 leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið en leikhúsið hefur starfað á Vestfjörðum síðan 2001.

Elfar Logi Hannesson.

DEILA