Þjóðgarður á Vestfjörðum: Súðavík sat hjá

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að hann hafi setið hjá við atkvæðagreiðslu á Fjórðungsþingi Vestfirðinga um tillögu Ísafjarðarbæjar um þjóðgarð á Vestfjörðum. Hann óttast að samþykktin muni torvelda virkjunarframkvæmdir á Vestfjörðum. „Raforkumálin eru stærsta málið. Við þurfum að láta það hafa forgang. Það vantar rafmagn fyrir Kalkþörungaverksmiðjuna sem verður reist í Súðavík og við þurfum stöðugra rafmagn.“  Bragi segist ekki vera á móti þjóðgarði á Vestfjörðum og það ætti að vera vel hægt að gera hvort tveggja að reisa Vatnsfjarðarvirkjun og hafa þjóðgarð.

Nanný Arna Guðmundsdóttir, flutningsmaður tillögunnar fyrir hönd Ísafjarðarbæjar var innt eftir því hvort gert væri ráð fyrir að Vatnsfjarðarvirkjun gæti orðið að veruleika eða hvort andstaða væri við virkjuna. Hún svaraði því ekki beint en segir í svari sínu að ályktunin væri ekki hugsuð til að knésetja hugmyndir eða koma í veg fyrir eðlilega innviða uppbyggingu.

„Við teljum eðlilegt að umhverfis, orku og innviðaráðherra komi með lausnir á orkuvanda Vestfirðinga í samstarfi við Landsnet og Orkubú Vestfirðinga. Þær lausnir verða að vera raunhæfar og framkvæmanlegar. Við mælum með að lausnir verði skoðaðar út frá umhverfisáhrifum og hversu fljótt þær vinnast, því Vestfirðir hafa ekki tíma til að bíða.“

Spurningin um afstöðu til Vatnsfjarðarvirkjunar var þá ítrekuð og spurt hvort skilja mætti svarið sem svo að flutningsmenn væru ekki tilbúnir til þess að styðja hana. Svar barst ekki við ítrekuninni.

 

Nanný Arna Guðmundsdóttir.

DEILA