Suðureyri: tengja nýja vatnslögn á mánudag

Súgandafjörður séð til suðausturs: Frá vinstri Suðureyri, Spillir (fjallið), Staðardalur, fyrir miðju fremst bylið Bær siðan eyðijarðirnir Ytri-Vatnadalur og Fremri-Vatnadalur. Vatnadalsvatn. Í hægri kant kirkjustaðurinn Staður og eyðijörðin Staðarhús þar framan við. Ísafjarðarbær áður Suðureyrarhreppur. / Sugandafjordur Mynd: Mats Wibe Lund.

Kristján Andri Guðjónsson, bæjarverkstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að stefnt væri að því að tengja á mánudaginn nýja vatnslögn frá Staðardal í vatnstankinn á Suðureyri. Sagðist hann vonast til þess að þá fengist nægilegt vatn fyrir þorpið. Að undanförnu hefði vatnsmagnið sem leiðslan flytur minnkað verulega og væri það nú lítið meira en helmingur af því sem áður var. Ekki hefði tekist að finna skýringu, en þar sem ekki hefði fundist leki væri talið líklegast að leiðslan hefði lagst að nokkru leyti saman og flutningsgetan þannig minnkað. Við leit á lögninni frá Staðardal og þaðan upp í vatnslindir hafa heldur ekki fundist nein merki um leka og því gerir Kristján Andri sér vonir um að ástandið lagist þegar nýja leiðslan verður tengd.

Þá hefur verið leitað að leka úr vatnsleiðslum í þorpinu á Suðureyri og smám saman hefði svæðið verið þrengt þar sem um leka gæti verið að ræða, en enn sem komið er hefur hann ekki fundist.

Daglega hafa tveir bílar flutt vatn til Suðureyrar frá Ísafirði og hafa þeir verið á ferðinni frá morgni til kvölds. Hafa þeir samkvæmt heimildum Bæjarins besta farið sex ferðir á dag og flutt meira en 200 rúmmetra. Kostnaður mun losa hálfa milljón króna á dag, en bæjaryfirvöld hafa ekki staðfest það.

DEILA