Stúdentagarðar Ísafirði: stefnt að því að steypa sökkla fyrir veturinn

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður Stúdentagarðanna.

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður húsnæðissjálfseignarstofnunar (Hses) Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða segir að unnið sé hörðum höndum að framgangi stúdentagarðanna. Ætlunin er að reisa 40 íbúðir á tveimur hæðum á lóðinni Fjarðarstræti 20 og hafa þær tilbúnar við upphaf skólahalds Háskólaseturs Vestfjarða haustið 2023.

Ágúst Gíslason, byggingatæknifræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri og hóf hann störf á þriðjudaginn. Verið er að ganga frá skráningu húsnæðissamvinnufélagsins svo og að fá verkfræðistofu til þess að vinna bruna- og burðarþolshönnun.

Grunnhönnun húsnæðisins liggur fyrir og er hún eftir Kjartan Árnason, arkitekt á Ísafirði.

Heildarstofnverð nemendagarðanna eru 616 milljónir króna. Heildarfermetrafjöldinn er 1.220. Ríkið leggur fram 18% af stofnkostnaði og Ísafjarðarbær 12%.

DEILA