Súðavíkurhlíð: 2,3 km löng jarðgöng

Styttri göngin má sjá á þessari mynd sem sýnir lengri göngin.

Seinni jarðgangakostur, sem tekinn er til umfjöllunar í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri, RHA, milli Ísafjarðar og Súðavíkur eru 2,3 km löng göng inn undir Súðavíkurhlíð frá gili 21 að gili 1 með munna í 10 til 15 m hæð yfir sjávarmáli. Göngin myndu taka af mestu snjóflóðahættusvæðin á Súðavíkurhlíð.

Gert ráð fyrir umferðinni 186 ÁDU í Súðavíkurhlíð árið 2023 miðað við að kominn sé nýr vegur í Þorskafirði og Gufudalssveit sem og yfir Dynjandisheiði. Þar sem þessi göng stytta leiðina ekkert er engin orsökuð umferð vegna vegstyttingar. Á fyrsta ári 2025 er gert ráð fyrir umferðinni 191 ÁDU.

Greiðsluvilji vegfarenda er metinn enginn nema þegar núverandi leið væri lokuð. Með nýrri leið fækki lokunardögum
um 2/3 og verði vegur opinn 2,7 viðbótardaga á ári í stað þess að vera lokaður. Framkvæmdin hafi ekki áhrif á umferðaróhöpp á þessari leið. Stofnkostnaður án VSK verði 4.624 Mkr og framkvæmdatími 1,6 ár.

Niðurstaða arðsemismats er að núvirtur heildarábati verður neikvæður um 3.831 milljónir króna. Reiknuð. Arðsemi þessara ganga er -2,28%. Það þýðir að vextir þurfa að vera neikvæður um 2,28% til þess að núvirtur heildarábati verði 0.

Þar sem enginn greiðsluvilji er í þessum göngum nema þegar núverandi leið er lokuð er ekki kostur að taka í þeim veggjald.

Ekki er gert ráð fyrir að umferðaróhöppum fækki með tilkomu þessara ganga. Hins vegar er augljóst að hættan á því að vegfarendur lendi í snjóflóði í Súðavíkurhlíð minnkar verulega.

Stytting vegna þessara ganga verður engin en greiðfærari tenging verður á milli Súðavíkur, Ísafjarðar og nágrennis og lokunum vegar vegna snjóflóðahættu á Súðavíkurhlíð mun fækka.

Göngin munu styrkja atvinnu- og þjónustusvæðið í kringum Ísafjörð og auðvelda sameiningu sveitarfélaga og eru byggðaáhrifin metin talsvert jákvæð.

DEILA