Súðavík: mikil íbúafjölgun líklega vegna íbúðabygginga

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að mikil íbúafjölgun í sveitarfélaginu frá 1. desember 2021 sé líklega vegna aukins framboðs á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um 24 á síðustu 9 mánuðum og voru orðnir 237 um síðustu mánaðamót.

Ef ekki hefði komið til þessarar fjölgunar í Súðavík hefði fækkað á norðanverðum Vestfjörðum á tímabilinu um 3 í stað fjölgunar um 21.

Inntur eftir skýringum á fjölguninni svaraði Bragi Þór Thoroddsen:

„Ég kann ekki skýringar á nema hluta þeirrar fjölgunar íbúa sem orðið hefur undanfarna mánuði. Við fengum til okkar 6 manna hóp úkraínskra flóttamanna í maí 2022, en það er aðeins hluti þeirrar fjölgunar sem orðið hefur. Við byggðum íbúðarhúsnæði sem tekið var í notkun 2021, en það eru 5 íbúðir. Af þeim á Súðavíkurhreppur þrjár. Þessar íbúðir hafa allar verið í notkun og útleigu að mestu frá þeim tíma sem húsnæðið var klárt. Þannig að lítillega hefur aukist það húsnæði sem er í boði. Eftirspurn hefur verið eftir húsnæði í sveitarfélaginu undanfarna mánuðiog er bara jákvæð og góð þróun. Ég á samt von á því að einhver hreyfing verði í báðar áttir næstu mánuðina þar sem fólk  hefur líka flutt frá okkur. Engin veruleg breyting hefur verið á framboði atvinnu, en þó aðeins í jákvæða átt.“

DEILA