Studio Dan: bærinn tapar 10,6 m.kr.

Studio Dan.

Studio Dan ehf skuldar Ísafjarðarbæ 12,8 m.kr og eignir félagsins eru metnar á 2,3 m.kr. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fól bæjarstjóra að skoða möguleika og útfærslu á slitum félagsins, en það er í 100% eigu Ísafjarðarbæjar, en engin starfsemi hefur verið í félaginu síðan í upphafi árs 2020.

Í lok árs 2017 keypti bærinn allt hlutafé í líkamsræktarstöðinni. Guðmundur Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri sagði að það hafi verið af illri nauðsyn til þess að tryggja að líkamsræktarstöð yrði starfrækt á Ísafirði. Skuldin við sveitarfélagið er fyrst og fremst komin til af hallarekstri sem hefur verið mætt með því að greiða ekki leigu fyrir afnot af húsnæðinu.

Fyrirsjáanlegt er að bærinn tapar um 10.6 m.kr. af inneign sinni hjá félaginu. Líkamsræktarstarfsemi á Ísafirði er styrkt um 400 þúsund kr. á mánuði með samningi við Isofit til þriggja ára.

Stefnt er að því að halda aðalfund í félaginu og kjósa nýja stjórnarmenn í stað Birgis Gunnarssonar og Stefaníu Ásmundsdóttur.

DEILA