Sigríður Júlía nýr kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri

Sigríður í sínu náttúrulega umhverfi í Öndunarfirði í peysu eftir hana sjálfa. Mynd: aðsend.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir hefur verið ráðin kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun, kennslu og fræðastörfum. Sigríður hefur frá árinu 2004 unnið að umhverfismálum og skógrækt, fyrst sem verkefnastjóri hjá Vesturlandsskógum, síðan sem héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Vesturlandi og Vestfjörðum og framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga, en frá árinu 2016 sem sviðstjóri hjá Skógræktinni. Þar stýrði hún m.a. ráðgjafarþjónustu stofnunarinnar, sá um þjóðskóga og skógrækt á lögbýlum í samstarfi við skógarbændur. Sigríður hefur setið í framkvæmdaráði Skógræktarinnar frá stofnun hennar árið 2016.

Sigríður Júlía hefur kennt við Landbúnaðarháskóla Íslands, bæði í bændadeild og á háskólastigi. Hún hefur einnig haldið erindi á fjölmörgum fundum, málþingum og ráðstefnum í gegnum tíðina auk námskeiðahalds á sviði umhverfismála og skógræktar.

Sigríður Júlía er með mastersgráðu í í skógfræði við norska lífvísindaháskólann að Ási í Noregi (Universitetet for miljø og biovitenskap) frá 2013 og BS gráðu í landnýtingu frá Landbúnaðarháskóla Íslands 2004. Hún hefur skrifað fjölda greina í fagtímarit, bæði erlend og innlend á sínu fræðasviði. Hún stundar meistaranám í áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst.

Sigríður er virk í félagsmálum, situr í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, er formaður skipulags- og mannvirkjanefndar og forseti bæjarstjórnar.

Lýðskólinn á Flateyri býður upp á nám á tveimur brautum þar sem önnur leggur áherslu á listir og sköpun en hin á útivist, umhverfi og sjálfbærni. Á hverju ári stunda um 30 nemendur nám við skólann sem nú er að byggja nýja nemendagarða á Flateyri en skortur á íbúðarhúsnæði fyrir nemendur hefur hamlað inntöku í skólann.

Sigríður er gift Steinþóri Bjarna Kristjánssyni, fjármálastjóra. Þau eru bændur í Hjarðardal ytri í Önundarfirði og búa með sauðfé, hesta, kött og æðarkollur. Samtals eiga þau sex börn. Áhugamál Sigríðar er prjón, útivist, félagsmál, mannleg samskipti, hreyfing og ferðalög auk skógræktar, umhverfismála og lestri góðra bóka.

DEILA