Samfélagssáttmáli Vestfjarða

Pistlar undirritaðrar í fréttabréf Vestfjarðastofu hafa oft og einatt snúist um samkeppnisstöðu Vestfjarða. Kröfur Vestfirðinga um innviðaúrbætur miða eingöngu að því að samkeppnisstaða svæðisins jafnist á við önnur svæði á landsbyggðunum.  Byggðaáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi hefur þau fallegu meginmarkmið að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Þar er jafnframt tekið fram að sérstök áhersla skuli lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf.

Það er einmitt þessi sérstaka áhersla sem lengi, lengi hefur verið kallað eftir. Aðgerðir byggðaáætlunar eru nefnilega dálítið þunnt smurðar yfir öll svæði utan höfuðborgarsvæðisins. Og höfuðborgarsvæðið kallar einnig eftir byggðaaðgerðum. Það gerir að verkum að hin sérstaka áhersla á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun verður ansi brauðmolakennd, nánast eins og plástur á hjartaáfall.

Ég skrifaði um mannfjöldaspá Byggðastofnunar fyrr á árinu. Mannfjöldaspáin er rauð ljós. Það eru í raun tvö svæði á landinu sem gæta þarf sérstaklega að ef litið er á mannfjöldaspá með þessum augum. Það eru Vestfirðir og Norðurland vestra. Fleiri svæði má að sjálfsögðu tilgreina, en ekki sem heila landshluta.

Fyrir fjórum árum unnu sveitarstjórnir, atvinnulíf og stofnanir á Vestfjörðum sviðsmyndir til að efla skilning á líklegri þróun samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum til ársins 2035 í riti sem bar yfirskriftina Krossgötur – Vestfirðir 2035.

Sviðsmyndavinnan var unnin á þeim tímamótum að eftir allt að 30 ára samdrátt efnahags og samfélaga á Vestfjörðum var íbúum farið að fjölga á ný samhliða fjölgun starfa í fiskeldi og ferðaþjónustu. Staðan er þó ennþá brothætt og mikilvægt að sem flestir skilji hvaða drifkraftar eru taldir líklegastir til að leiða þróunina á Vestfjörðum. Í þeirri vinnu sem unnin var árið 2018 var niðurstaðan að annarsvegar sé það þekkingarstig og hins vegar viðhorf og athafnir stjórnvalda.

Teiknaðar voru upp fjórar sviðsmyndir, Vestfirski þjóðgarðurinn, Aftur til fortíðar, Vestfirðir í Sókn og Vestfirsk seigla. Nú árið 2022 má segja að finna megi hliðstæður í sviðmyndum Vestfirðir í sókn og Vestfirsk seigla. Íbúum hefur fjölgað þó þeir nái ekki hlutfallslega fjölgun á landsvísu og fjöldi starfa er í boði. Staða innviða bæði nýframkvæmdir sem og viðhald, er allt frá því að vera mjög erfið og ekki fyrirsjáanlegar úrbætur, yfir í að sjá fram á verulegan bata auk áfanga sem settir hafa verið á áætlun. Fjárhagsstaða sveitarfélaga er á sama tíma erfið og að óbreyttu mun það áfram skerða getu þeirra til að fylgja eftir framþróun atvinnulífs og innviða.

Á Vestfjörðum er margt verulega jákvætt að gerast þessi misserin. Það er kraftur í atvinnulífinu, verið er að byggja hús og vegi og í sjónmáli er bylting í samgöngum svæðsins. Það er þó svo að til þess að samkeppnisstaða svæðsins styrkist þarf fjárhagsleg staða sveitarfélaganna að vera þannig að þau geti sinnt þjónustu og innviðauppbyggingu eftir langvarandi niðursveiflu síðustu 30 ára og þau geti stutt með öflugum hætti við þá sókn svæðsins sem er í sjónmáli.

Við köllum því eftir sáttmála sveitarfélaga á Vestfjörðum og ríkisvaldsins til næstu 10 ára sem miðar að því að útfæra þá sérstöku áherslu sem við höfum lengi kallað eftir til að jafna samkeppnisstöðu svæðisins og þannig skapað forsendur öflugs atvinnulífs og samfélags:

  • Jarðgangnaáætlun Vestfjarða verði fylgt eftir og á næstu 10 byggð 3-4 jarðgöng sem tryggja að atvinnusvæðin virki allt árið.
  • Að tillögum starfshóps umhverfis- orku og auðlindaráðherra verði fylgt eftir til að tryggja uppbyggingu samkeppnishæfs raforkukerfis á Vestfjörðum.
  • Gjöld í fiskeldissjóð renni til fiskeldissveitarfélaga sem tekjustofn í A hluta.

Færa má margþætt rök fyrir því, að fjárfesting í þekkingu, menntun og innviðum á Vestfjörðum muni á þessum áratug skapa mörg ný atvinnutækifæri fyrir þjóðarbúið svo sem í fiskeldi, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og afleiddum störfum. Ný störf munu því dragi úr samdrætti til skemmri og lengri tíma litið og skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Má eins leiða líkum að því að þjóðarbúið hafi þegar orðið fyrir skaða, að hafa ekki sterkt atvinnulíf og samfélag á Vestfjörðum, sökum óljósra viðhorfa og athafnaleysis stjórnvalda í gegnum árin.

Atvinnulíf þarf við slíka uppbygging að fá skýr viðhorf og athafnir að hálfu stjórnvalda, því þrátt fyrir núverandi stöðu innviða og þjónustu hins opinbera er víðtæk uppbygging í gangi. Ekki má taka það langlundargeð sem gefið, til lengri tíma litið og láta reyna á úthald atvinnulífsins. Á sama hátt þurfa íbúar og nýir íbúar að fá sömu skilaboð. Ef ekki þá, munu þættir úr sviðsmyndinni Aftur til fortíðar koma fram, andstætt öllum markmiðum í áætlunum stjórnvalda og við sitjum í svipuðum sporum að 10 árum liðnum með biturt eftirbragð tapaðra tækifæra og blikkandi rauð ljós.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarastofu.

DEILA