Piff kvikmyndahátíð: kvikmyndir frá öllum heimshornum sýndar á Vestfjörðum

Kvikmyndahátíðin The Pigeon International Film Festival (Piff) verður haldin í annað sinn, á Ísafirði 13. til 16. október. Búist er við enn meiri aðsókn í ár og sýndar myndir frá öllu heimshornum. „Hátíðin í fyrra var okkar frumraun og renndum við svolítið blint í sjóinn með þetta, og voru þátttakendur sammála um að hún hafi heppnast vel. Á hana mættu um 40 kvikmyndagerðarmenn, bæði íslenskir og erlendir, segir Fjölnir Baldursson, einn skipuleggjanda Piff-hátíðarinnar.


Sýndar verða myndir frá hátt í 30 löndum svo sem frá Póllandi, Íran, Bútan, Mexíkó og Austurríki. Um er að ræða 60 myndir. Sjö kvikmyndir, 25 stuttmyndir, fimm heimildarmyndir og svo einnig barna – og teiknimyndir. En alls bárust skipuleggjendum hátíðarinnar rúmlega 2.000 umsóknir frá vongóðum kvikmyndagerðarmönnum frá 64 löndum sem vildu sýna á hátíðinni. „Við búumst við betri aðsókn á hátíðina í ár. Bæði erlendis frá og einnig að fleiri heimamenn komi í bíó. Nú erum við búin að sanna að þetta sé hægt að vera með gæða kvikmyndahátíð á Ísafirði,“ segir Steingrímur Rúnar Guðmundsson, annar Piff-skipuleggjandi.

„Á síðasta ári þá gekk það vel að ná til bæjabúa í sambandi við mætingu á hátíðina, en margir gerðu sér ekki grein fyrir  hve vegleg þessi hátíð var,“ bætir Fjölnir við. Hátíðin verður ókeypis fyrir gesti þar sem hún er dyggilega styrkt af fyrirtækjum.


Flestar sýninganna fara fram í Ísafjarðarbíó en einnig verða frísýningar á fleiri stöðum á norðanverðum Vestfjörðum. Dagskráin verður kynnt betur síðar meir en opnun hátíðarinnar fer fram kl. 17 fimmtudaginn 13. október. Frekari upplýsingar er svo að finna á Facebook-síðu hátíðarinnar.

The Pigeon International Film Festival – PIFF | Facebook

DEILA