Óshyrna: verulega aukin gliðnun í sprungunni

Loftmynd af sprungunni tekin með dróna.

Við mælingar á dögunum kom í ljós að sprungan efst í Óshyrnunni er á töluverðri hreyfingu. Ekki hefur verið mælt frá 2019 en síðan þá hefur orðið 3 cm færsla. Það er mun meiri gliðnun er var árin á undan frá aldamótum þegar hún mældist 2 – 5 mm á ári. Gliðnunin nú er því tvisvar til fimm sinnum meiri eftir því hvort miðað er við 2 eða 5 mm árlega gliðnun. Sprungan er á hreyfingu , segir Jón Kristinn, og gæti fallið á næstu árum eða áratugum.

Jón Kristinn Helgason, jarðfræðingur hjá Veðurstofunni segir að dýptin á sprungunni sé áætlun vera 50 metrar. Fyrir fjörtíu árum var dýptin talin vera 20 metrar. Hann segir að rúmmál efnisins sem gæti losnað sé um 50 – 150 þúsund rúmmetrar. Í skýrslu frá 2006 segja Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur og Gísli Eiríksson, verkfræðingur líklegast að hrun úr Óshyrnunni haldi áfram a.m.k næsta áratug með svipuðum hætti og verið hefur síðustu áratugi. Það merkir að þótt spilda við brúnina mjakist fram, verði áfram hrun úr bæði brúninni og klettabeltum neðar í fjallshlíðinni. Magn grjóts eða kletta sem hrynja í hvert sinn er yfirleitt frá broti úr rúmmetra upp fáeina rúmmetra en einstaka sinnum (ekki árlega ) getur hrunið numið tugum rúmmetra.

Þó sé ekki hægt að útiloka mjög stórt hrun úr Óshyrnu segir í skýrslunni. Jón Kristinn segir ekki líklegt að möguleg flóðbylgja í kjölfar mikils hruns myndi ógna hafnarmannvirkjum eða byggð í Bolungavík.

Myndir: Jón Kristinn Helgason.

Sprungan í Óshyrnunni er greinileg á þessari mynd sem Jón Kristinn tók með dróna.
Unnið við mælingar í sprungunni.

DEILA