Orkubússtjóri: óveðrið sýndi kosti nýrrar virkjunar á Vestfjörðum

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Elias Jónatansson, Orkubússtjóri segir að óveðrið um síðustu helgi hafi haft þau áhrif að útsláttur varð í flutningskerfi Landsnets, Mjólkárlínu sem er hluti af Vesturlínu.  „Atburðarásin leiddi til útslátta vegna undirtíðni í dreifikerfi Orkubúsins og einnig fóru allar vélar í Mjólkárvirkjun af netinu tímabundið. Innsetning tók á sumum stöðum lengri tíma en við höfum átt að venjast að undanförnu og munu starfsmenn OV og Landsnets rýna það mál sérstaklega.“

Vatnsdalsvirkjun hefði breytt miklu

Elías var spurður að því og hvernig hann mæti öryggi á Vestfjörðum eftir óveðrið í ljósi útsláttarins á landskerfinu.

„Við höfum ekki tiltækar upplýsingar til að tjá okkur um rafmagnsleysið á öðrum stöðum á landinu, en útslátturinn á Mjólkárlínu sýnir okkur enn og aftur ókosti þess að orkuflutningur til neytenda á Vestfjörðum byggi að svo miklu leyti á einni línu, Vesturlínu.  Kostir orkuöflunar í nálægð við neytendur hennar koma einnig skýrt fram við slíkar aðstæður.  Nefna má sem dæmi að ef Vatnsdalsvirkjun hefði verið fyrir hendi hefði enginn notandi á Vestfjörðum orðið var við þennan útslátt á Mjólkárlínu og ekki hefði þurft að ræsa dísilknúið varaafl í Bolungarvík og víðar á Vestfjörðum.“

DEILA