Óbyggaðnefnd: málflutningur fór fram á Ísafirði í gær

Frá þinghaldinu í september. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Aðalmeðferð Óbyggðanefndar er varðar mál 6-8/2021 á svæði 10B, Ísafjarðarsýslum, fór fram í Edinborgarhúsinu, Ísafirði í gær. Hófst hún snemma morguns og stóð fram undir kvöld. Aðalmeðferðin hófst með skýrslutökum þar sem fulltrúar landeigenda gáfu skýrslu um jarðir sínar og lýstu þeim. Þar gáfu vitnisburð m.a. bræðurnir Hallgrímur og Guðmundur Ketill Guðfinnssynir vegna Reykjarfjarðar í Grunnavíkurhreppi, Haukur Vagnsson vegna Marðareyrar í Veiðileysufirði, Bjarni Sólbergsson vegna Leiru í Leirufirði, Sölvi Sólbergsson vegna Hesteyrar og Stígur Stígsson vegna Hornvíkur.

Að loknum skýrslutökum hófst máflutningur. Fyrst flutti lögmaður ríkisins máls sitt og lýst kröfum ríkisins. Þá tóku til máls lögmenn landeigenda og vörðust kröfum ríkisins. Að loknum andsvörum var málið lagt í dóm Óbyggðanefndar. Stefnt er að því að nefndin birti niðurstöðu sína fyrir áramót. Úrskurður Óbyggðanefndar er endanlegur á stjórnsýslustigi en hægt er að bera hann undir dómstóla.

Í Óbyggðanefnd eiga sæti Hulda Árnadóttir, héraðsdómari, formaður, Allan V. Magnússon, fyrrv. dómstjóri, varaformaður og Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri. Þorsteinn var ekki á Ísafirði í gær og í hans stað sat Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari.

Kröfulýsing fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins er skjal upp á 200 blaðsíður og nær yfir 240 jarðir. Þar má segja, og er ekki ofsagt, að settar eru fram ýtrustu kröfur um að land teljist þjóðlenda en ekki eignarland. Til dæmis er víða í Jökulfjörðum krafist þess að land ofan 200 metra hæðarlínu sé þjóðlenda og annars staðar , svo sem í Reykjarfirði, er þess krafist að þjóðlenda nái niður að sjó. Heyra mátti á lögmönnum landeigenda að þeim þættu það harðir kostir að landeigendur yrðu að sanna eignarrétt sinn en ríkið gæti sett fyrirhafnarlítið fram kröfur um þjóðlendu , jafnvel á jörðum þar sem ríkið hefði áður selt öðrum til eignar athugasemdalaust.

Landeigendur hlýða á málflutning fyrir Óbyggðanefnd.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA