Mjólkárlína2: málsmeðferð heimiluð

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur heimilað að málsmeðferð hefjist við breytingu á aðalskipulagi vegna Mjólkárlínu 2.

Landsnet hyggst leggja 16 km jarðstreng frá Mjólká að Hrafnseyri og sæstreng þaðan til Bíldudals. Jarðstrengurinn liggur að mestu leyti samhliða þjóðvegum, þ.e. nr. 60, Vestfjarðavegi frá Mjólká og þaðan meðfram vegi nr. 626 að Hrafnseyri. Tilgangurinn er að bæta afhendingaröryggi raforku í sveitarfélaginu sem og í nágrannasveitarfélögum sem tengjast inn á tengivirki í Mjólká. Einnig að draga verulega úr straumleysi og að hægt verði að mæta aukinni orkuþörf.

Bornir eru saman tveir kostir, annars vegar að strengurinn liggi frá Auðkúlubót og hins vegar frá Hrafnseyri. Er það niðurstaða umhverfismats að afgerandi kostir eru við það „að taka strenginn í land á Hrafnseyri. Með þeim hætti er hægt að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, svo sem áhrif á náttúruminjar sem njóta verndar skv. lögum um náttúruvernd og áhrif á mikilvægt fuglasvæði og æðarvarp.“

DEILA