Minning: sr. Tómas Guðmundsson

Tómas Guðmundsson var sóknarprestur í Patreksfjarðarprestakalli árin 1956-70 og gegndi aukaþjónustu í Bíldudals-, Sauðlauksdals og Brjánslækjarprestaköllum á þeim árum.

Síra Tómas Guðmundsson

               fyrrverandi prófastur,

               f. 28. apríl 1926 – d. 17. september 2022.

Síra Tómas fæddist að Uppsölum í Norðurárdal, sonur Ólafar Jónsdóttir og Guðmundar  Tómassonar, bónda og smiðs í Tandraseli í Langavatnsdal, seinna í Stóru-Skógum í Stafholtstungum.  Guðmundur var ættaður frá Hróarsholti í Villingaholtshreppi; foreldrar hans,  Tómas Guðmundsson og Ástrós Sumarliðadóttir, bjuggu á Einifelli í Stafholtstungum. Fráafi síra Tómasar í föðurætt var síra Tómas Guðmundsson, prestur í Villingaholti í Flóa, gáfumaður, góður prédikari og söngmaður, afbragðssmiður, verkmaður og hagmæltur.  Foreldrar Ólafar, móður síra Tómasar, voru Gróa Halldóra Jónsdóttir og Jón Bjarnason, sem bjuggu á Einifelli.

                 Tómas ólst upp með foreldrum og systkinum í Tandraseli í Langavatnsdal; voru þau Guðmundur og Ólöf síðustu ábúendur þar. Hann nam við héraðsskólana í Reykholti og á Laugarvatni;  lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1950.

               Hann innritaðist í guðfræðideild Háskóla Íslands og  útskrifaðist kandídat fimm árum síðar.  Prófessor í Gamla testamenti fullvissaði hann um að hann þyrfti ekki að lesa  Jeremía spámann;  ekkert yrði spurt um hann á lokaprófi.  En sólarhring áður en Tómas gekk upp til embættisprófs fékk hann hugboð um, að þessari staðhæfingu væri vart treystandi.  Settist hann því við og sökkti sér niður í spádómsbók Jeremía þann dag allan og næstu nótt.  Og viti menn!  Tómas kom upp í Jeremía og stóðst prófið.

Á Patrekfirði kom síra Tómas á fót skákfélagi og spilaklúbbi, fjölgaði í kirkjukórnum og stofnaði karlakór.  Þá  setti hann á laggirnar iðnskóla vestra.  Hann var, ásamt Gesti Einarssyni frá Hæli, forgöngumaður um að skóli hófst á Litla-Hrauni, þar sem meðal lærifeðra var Sveinn Ágústsson frá Ásum.  Þá kenndi síra Tómas við Iðnskólann á Selfossi um 12 ára bil.   Í prófastsembætti Árnesinga var hann hvatamaður að kóramótum í Skálholti og kallaði til fagmenn  að þjálfa söngfólkið.

               Síra Tómas var reglumaður, þótt tæki í nefið um hríð.  Hann var búinn hyggindum, sem í hag mega koma.  Varð þess einatt vart í sálusorgun hans.

               Til hans leituðu hjón, sem hann hafði gefið saman.  Þau kváðust ekki ætla að skilja, en sögðust vera orðin eitthvað svo lifandis skelfing og heimsins óttalega ósköp leið og einhvern veginn.  Þau ynnu til klukkan fimm á daginn, ætu svo kvöldskattinn, gláptu á sjónvarpið og færu að hátta. 

               Síra Tómas ráðlagði þeim að koma sér upp kálgarði; fá að fara í gamalt fjárhús, taka skánina, mylja hana og bera í garðinn, láta kartöflur spíra, pota þeim niður, fylgjast með grösunum koma upp, reita arfann og gleðjast yfir uppskerunni.  Munu hjón þessi hafa átt gullbrúðkaup á dögunum.

               Auðvelt átti síra Tómas með að koma saman ferskeytlu, þótt ekki reri hann oft út á sónarsvið.  Hann orti:

                                            Boða orðið, grafa, gifta,

                                            gömlum, jafnt sem ungum, sinna.

                                            Skíra börn og sút burt svipta,

                                            slíkt má teljast prestsins vinna.

               Guð blessi minningu hins trygga og velviljaða vinar.  Hann huggi og styrki fjölskyldu hans. Felum síra Tómas Guðmundsson orði Guðs náðar.  Guð varðveiti hann og ástvini hans,  bæði þessa heims og annars, í Jesú nafni.

                                            Gunnar Björnsson,

                                            pastor emeritus.

DEILA