Miklidalur: efasemdir um stutt jarðgöng

Jarðgangaleiðin sem metin er í skýrslunni.

Greina má nokkrar efasemdir um gagnsemi stuttra jarðganga um Mikladal milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri, RHA, sem unnin var fyrir Vegagerðina um 13 jarðgangakosti á landsbyggðinni. Göngin yrðu 2,8 km löng og tækju af brattan kafla sem nær upp í 369 metra yfir sjávarmáli en gangamunnarnir yrðu í 270 metra og 180 metra hæð. Nánast engin stytting verður á veginum með göngunum. Spurt er í skýrslunni: „Er skynsamlegt að grafa göng og láta þau koma út fyrir ofan beygju með 45m radíus og langa brekku sem er brattari en 8,5%?“ Spurningunni er svarað þannig: „Með hverju árinu sem líður er ólíklegra að slík göng standist kröfur og markmið.“

Gangahugmyndin sem tekin er til athugunar er 2,8 km löng göng í 270 metra hæð vestan megin og í 180 metra hæð norðan megin. Vegstytting yrði 0,2 km. Umferð 2020 var 315 bílar á dag að jafnaði yfir árið (ÁDU). Gert er ráð fyrir að nýir vegir í Gufudalssveit og yfir Dynjandisheiði verði til þess að umferð um Mikladal minnki í 269 ÁDU. Ferðatími styttist um innan við eina mínútu. Stofnkostnaður án VSK verði 5.672 Mkr og framkvæmdatími 1,9 ár. Arðsemin yrði -1,87% sem þýðir að núvirtur heildarábati er enginn. Miðað við forsendur væri veggjaldið aðeins 39 kr. á fólksbíl og
gæfi ekki nema 6 milljónir kr. í tekjur á fyrsta ári. Það svarar því varla kostnaði að taka það.

Líklegra verður að teljast að ef göng milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar verði gerð á annað borð að þá verði þau hugsuð til lengri framtíðar þótt það kosti meira. Munni Patreksfjarðarmegin verði mun lægra, í 200 m h.y.s. eða neðar og munni Tálknafjarðarmegin verði niður við sjó (t.d. 20 m h.y.s). Er þá verið að tala um jarðgöng sem gætu litið úr eitthvað í áttina að því sem sjá má á myndinni að neðan. Lengd þeirra yrði um 5,3-5,4 km. Fjöldi óhappa yrði sá sami. Svo segir um umferðaröryggi:

„Þrátt fyrir þessa útfærslu á göngum yrði leiðin samt ekki góð út frá umferðaröryggi. Mikladalsmegin yrðu enn brattar brekkur með langhalla hátt í 10%. Tálknafjarðarmegin yrði áfram kröpp beygja (radíus um 45 m) og löng brekka með langhalla yfir 8,5%. Vegurinn um Mikladal er lélegur og mjór og það veldur sérstakri hættu, sérstaklega þegar haft er í huga að umferð stórra flutningabíla um veginn hefur stóraukist á undanförnum árum í tengslum við fiskeldið á svæðinu.“ Ekki er tryggt að þau muni valda neinum straumhvörfum í samskiptum milli staðanna á svæðinu segir um áhrif ganganna á samgöngur.

Skýrsluhöfundar nefna einnig annan möguleika. Hér eru strikuð göng sem eru 3,7 km löng með munna í 80 m h.y.s. beggja vegna. Þau krefjast þó meiri vegagerðar í Tálknafirði.

DEILA