Maskína: 6 flokkar ná kjöri

Halla Signý Kristjánsdóttir

Sex flokkar fá þingmann kjörinn á Vesturlandi og Vestfjörðum ssamkvæmt nýrri könnun Maskínu sem birt var í morgun. Niðurstöður eru greindar eftir landssvæðum sem þó falla ekki saman við kjördæmaskipanina að því leyti að Vesturland og Vestfirðir eru teknir saman en Húnavatnssýslur og Skagafjörður, sem tilheyra Norðvesturkjördæmi, eru færð með Norðurlandi. Norðausturkjördæmi er einnig skipt upp milli Norðurlands og Austurlands.

Svörin fyrir Vesturland og Vestfirði eru fá og vikmörkin eru ekki gefin upp. Könnunin fór fram dagana16. til 27.september 2022 og voru 1.875 svarendur sem tóku afstöðu til flokks, þar af um 120 svör fyrir Vesturland og Vestfirði.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi mest fylgi eða 23,3%, Framsóknarflokkurinn mælist með 16,5%, Píratar 14,1%, Vinstri grænir 12,5%, Samfylkingin 11,4%, Miðflokkurinn 9,6%, Viðreisn 3,9% og Sósíalistaflokkurinn 3,2%.

Kjördæmaþingsætin sjö myndu skiptast þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fengu 2 þingsæti og fimm flokkar fengju eitt sæti hver, Framsóknarflokkurinn, Píratar, Vinstri grænir, Miðflokkurinn og Samfylkingin.

Framsókn myndi því tapa tveimur þingsætum en Samfylking og Píratar vinna eitt sæti hvor flokkur.

DEILA