Málefni fatlaðra: ríkið boðar mikla skerðingu framlaga

Fram hefur komið í áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að framlög til málefna fatlaðra á Vestfjörðum á þessu ári verði um 465 m.kr. Í upphafi árs var áætlað að framlögin yrðu 546 m.kr. Mismunurinn er um 80 m.kr. lægri upphæð framlaga frá ríkinu sem koma til sveitarfélaga gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Aðalfundur Byggðarsamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks ályktaði um málið í júlí sl. og lýsti yfir „þungum áhyggjum á boðaðri skerðingu á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þjónustu viðfatlað fólk á Vestfjörðum. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun sjóðsins munu framlög til svæðisins skerðast um kr. 80.000.000 á milli áætlana og ljóst að slíkt tekjufall leggst þungt á rekstur á vegum byggðasamlagsins og fyrirsjáanlegt að slík skerðing hafi áhrif á þjónustu við fatlað fólk.“ Þá segir í ályktuninni að sveitarfélögin séu illa í stakk búin til þess að greiða hallan á resktrinum sem verður ef framlögin skerðast.

195 m.kr. skerðing eða 40%

Stjórn Byggðasamlagsins ályktaði um málið á fundi sínum á föstudaginn og lýsti yfir miklum áhyggjum af sívaxandi halla á rekstri málaflokks fatlaðs fólks sem leiðir af boðaðri skerðingu á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þjónustu við fatlað fólk á Vestfjörðum. Stjórnin segir í ályktun sinni að „Samkvæmt endurskoðaðri áætlun sjóðsins munu framlög til svæðisins skerðast um kr. 195.000.000 á milli áætlana“ og segir fyrirsjáanlegt að slík skerðing hafi áhrif á þjónustu við fatlað fólk.

Framlögin í fyrra voru 499 m.kr.

Stjórnin vekur athygli á miklum halla á rekstri málaflokksins á landsvísu undanfarin ár og segir

„Kostnaðarþróun á þjónustu við fatlað fólk árið 2018 -2020 sem kom út í nýlegri greiningu starfshóps ráðherra sýnir að rekstrarniðurstaða landsins vegna málaflokksins var neikvæð um 8,9 milljarða króna og hefur þá þrefaldast á síðustu þrem árum eða frá árinu 2018. Einnig er ljóst að hallinn fyrir árið 2021 er talsvert meiri.“

Þjónusta við fatlaða er samstarfsverkefni sveitarfélaganna og er veitt af fjórum aðilum, Ísafjarðarbæ, Félagsþjónustunni við Djúp, sem er veitt af Bolungavík og Súðavík, Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla og Félagsþjónustu V-Barðastrandasýslu, sem Vesturbyggð og Tálknafjörður standa að.

Framkvæmdastjóri Byggðasamlagsins er Sif Huld Albertsdóttir.

DEILA