Laxeldi utan Örlygshafnar: kæru hafnað

Örlygshöfn.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað  kröfu Ragnars Marinós Thorlacius, Reykjavík, landeiganda í Örlygshöfn, um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 um að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Stendur því ákvörðun Skipulagsstofnunar og ekki þarf að framkvæma sérstakt umhverfismat á áhrifum breytinganna. Telur úrskurðarnefndin að  umræddar breytingar hafi að öllum líkindum í för með sér minni umhverfisáhrif heldur en óbreytt fyrirkomulag.

Sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði sættu mati á umhverfisáhrifum árið 2016 og voru starfsleyfi og rekstrarleyfi gefin út í desember 2017. Í september 2018 voru öll leyfi felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar vegna skorts á umfjöllun um valkosti og samanburði á umhverfisáhrifum þeirra. Í framhaldinu var unnin skýrsla um valkosti sem viðbót við matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og lá álit Skipulagsstofnunar fyrir 16. maí 2019. Í ágúst sama ár gáfu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun út að nýju starfsleyfi og rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis framkvæmdaaðila í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í október 2020 tilkynntu eldisyrirtækin um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði og Skipulagsstofnun ákvað  8. nóvember 2021 að ekki þyrfti að gera sérstakt umhverfsmat til þess að meta breytingarnar.

Þessa ákvörðun kærði landeigandinn í Örlygshöfn og vildi fella hana úr gildi. Áður hafði hann farið fram á að  réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Því hafnaði úrskurðarnefndin 25. ágúst eins og greint var frá á bb.is. Nú hefur nefndin lokið því að úrskurða í málinu og næsta skref er að gefin verða út breytt rekstrarleyfi og starfsleyfi. Þau leyfi eru kæranleg.

Í málinu var einkum á það bent að ekki er verið að auka eldið eða álag á lífríkið heldur breyta eldissvæðum og hvíldartíma. Skipulagsstofnun benti á að magn lífræns úrgangs yrði óbreytt eftir breytingar og að álag vegna úrgangs ráðist af staðsetningu kvíaþyrpinga hverju sinni en ekki afmörkun eldissvæða. Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að kvíastæði séu í meira en 500 m fjarlægð frá stórstraumsfjöru við Örlygshöfn sem sé, að mati framkvæmdaaðila, yfir mörkum þeirrar fjarlægðar sem áhrifa eldis gæta á sjó eða botn.

DEILA